0 C
Selfoss

Menningarvitar frá Laugarvatni í „lystitúr“

Vinsælast

Nemendur í Yndislestri og Skapandi skrifum við Menntaskólann að Laugarvatni fóru í sannkallaðan lystitúr fyrir skömmu. Það er við hæfi að kalla ferðina þessu nafni því Halldór Laxness notaði það í fleiri en einni bók um ferðir sem farnar voru til að skemmta sér og menntast. Fyrsti áfangastaðurinn var einmitt hús skáldsins að Gljúfrasteini. Þar fengu nemendur leiðsögn um sýninguna „Frjáls í mínu lífi“ og meðtóku heimilisbraginn, söguna, listina og skáldskapinn. Að því loknu var haldið niður í miðbæ Reykjavíkur og skundað þar um strætin. Góðri stund var m.a. varið í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. Þar fengu nemendur sér kaffisopa og blöðuðu í heimsbókmenntunum, flettu fróðleiksritum og lásu ljóð eins og sæmir sönnum menningarvitum. Þá lá leiðin í Bíó Paradís þar sem kvikmyndafræðingurinn Oddný Sen tók á móti nemendum og sýndi þeim myndina Psycho eftir Hitchcock. Að því loknu ræddi og útskýrði Oddný aðferðir og einkenni Hitchcock. Á leiðinni heim mátti ekki á milli greina hvort meira var rætt um morðóða mömmudrengi eða ljóð og kaffidrykki. Góður rómur var gerður að þessum lystitúr.

Nýjar fréttir