4.5 C
Selfoss

Litir og línur í Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Ágústa Ragnarsdóttir og Elísabet Helga Harðardóttir verða með sýningu á Bókasafni Árborgar á Selfossi í desember. Þær eru báðar starfandi myndlistarkennarar við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og hafa unnið náið saman þar í fimm ár. Báðar hafa starfað við myndlist og hönnun alla sína tíð, sýnt sinn afrakstur í gegnum tíðina en aldrei saman fyrr en nú á þessum haustmánuðum.

Hugmyndin að þessari samvinnu kviknaði í kjölfar málningargrunna sem urðu til þegar Elísabet sýndi nemendum sínum grunntækni í litablöndun. Málningagrunnarnir söfnuðust saman og Elísabet hugsaði sem svo að það væri gaman að fá Ágústu til að teikna ofan á þá með sinni tækni og nýta þannig það efni sem til var fyrir. Myndir þessar eru því afrakstur hugmyndar sem kviknaði af kennslulegum forsendum en hefur undið upp á sig.

Myndirnar eru í grunnin landslag, órætt, skáldlegt, rómantískt með á stundum fígúratífu blandi. Flestar eru litríkar, sumar kaldar en aðrar heitar – grunnarnir ráðast af því hvað Elísabet var að taka fyrir í litblöndun í kennslunni. Yfir sumum ríkir drungi, aðrar eru bjartar. Óveðurský, eldgos, stuðlaberg, jarðmyndanir og dulúðlegar verur – allt dregið grafískum dráttum af Ágústu. Ísland í sinni miklu sýnilegu og ósýnilegu vídd.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Mynd:

(Litir og línur)

Eitt verkanna á sýningunni Litir og línur sem er í Bókasafni Árborgar Selfossi.

Nýjar fréttir