8.9 C
Selfoss

Flutningar hjá Smyril Line hafa fjórfaldast

Vinsælast

Skipafélagið Smyril Line hefur um árabil verið með frakt- og farþegaflutninga til og frá Seyðisfirði. Árið 2017 var sett upp ný siglingarleið, en skipið Mykines siglir nú á milli Þorlákshafnar og Rotterdam með vörur. Verkefnið er mikið og stórt og hefur dafnað vel. Blaðamaður hafði samband við Lindu B. Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra Smyril Line Cargo og spurði nokkura spurninga um verkefnið.

Hvenær hófust siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi?
„Í apríl 2017 hóf fyrirtækið vikulegar siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi með RO/RO skipinu Mykinesi, sem keypt var í lok árs 2016 fyrir verkefnið. Þetta var gífurlega stórt og mikið verkefni sem ráðist var í í góðu samstarfi við Sveitafélagið Ölfus. Með tilkomu Mykines varð til tenging milli Íslands og Rotterdam með mjög stuttum siglingatíma. Þarna urðu ákveðin tímamót í flutningum til og frá landinu. Markaðurinn á Íslandi brást mjög fljótt og vel við og hefur siglingaleiðin til/frá Þorlákshöfn nú fest sig í sessi. Það sýnir sig best á því að það magn sem Smyril Line flytur hefur fjórfjaldast frá því að Smyril Line Island var formlega stofnað 1. janúar 2015.“

Hvernig hefur gengið að mæta þessum öra vexti?
„Eðlilega hefur fyrirtækið gengið gegnum töluverða vaxtaverki en allt hefur þó gengið upp og því má þakka gífurlegri vinnu og metnaði frábærra starfsmanna félagsins. Við erum nú með rétt um 30 starfsmenn í vinnu hjá Smyril Line Cargo á Íslandi, á skrifstofum félagsins í Hafnarfirði, Þorlákshöfn og á Seyðisfirði.“

Hver er sérstaða Smyril Line Cargo í samanburði við aðra aðila á markaði?
„Smyril Line er eina skipafélagið sem siglir með svokölluð RO/RO (e. roll on/ roll off) skip á N-Atlantshafinu. Það þýðir í raun að  allur farmur er keyrður úr og í skipið. Allar vörur eru fluttar með flutningavögnum sem dregnir eru af dráttarbíl – sams konar og við sjáum keyra á vegum Íslands og alls staðar í heiminum. Við bjóðum upp á tvenns konar vagna þ.e.a.s. kælivagna sem sérhæfðir eru í að flytja hitastýrða vöru og svo seglvagna sem taka alls konar vörur t.d. byggingarvörur eða annað stórt. Stór þáttur er svo að öll vörumeðhöndlun er betri en ekki þarf að marg stafla vörum og allar vörur eru fluttar inni og ekki á opnu skipsdekki. Eins og áður sagði er flutningstíminn skemmri því siglingatími bæði Norrænu og Mykinesi eru settir upp þannig að flutningstíminn sé mjög stuttur hvort sem er fyrir inn- eða útflutning.“

Nú hefur orðið talsverð uppbygging í Þorlákshöfn með komu ykkar þangað. Sjáið þið fram á aukinn fjölda starfa í Þorlákshöfn tengt uppbyggingu hjá ykkur?
„Þegar við hófum starfsemi í Þorlákshöfn í apríl 2017 vorum við með einn starfsmann og losun/lestun skipsins var í verktöku. Fljótt bættist við einn starfsmaður til viðbótar og svo í nóvember sama ár ákváðum við að taka yfir losun/lestun skipsins sjálfs og þá voru ráðnir fjórir starfsmenn til viðbótar í fast starf. Á föstudögum fáum við svo aukafólk til að aðstoða við losun á skipinu. Á sama tíma fjárfestum við í ýmsum tækjabúnaði til þess að mæta aukinni starfsemi.“

Er frekari uppbygging í Þorlákshöfn framundan?
„Nú hefur enn eitt skrefið verið tekið í uppbyggingunni í Þorlákshöfn þar sem Smyril Line hefur fest kaup á húsnæði Fiskmarkaðs Íslands að Hafnarskeiði. Þetta er gífurlega stórt skref í rekstri félagsins og skref sem tryggir starfsemi okkar í Þorlákshöfn enn frekar. Starfsemi félagsins hefur verið í gámahúsum á hafnarsvæðinu en nú mun starfsemin flytjast á Hafnarskeiðið um áramótin. Um leið tökum við yfir þjónustu sem Fiskmarkaðurinn hefur séð um að hlaða vagna fyrir okkur af ferskum fiski og nú færist sú vinna á okkar hendur. Eftir kaupin verður fjöldi fastráðinna starfsmanna félagsins í Þorlákshöfn átta talsins og svo bætast við starfsmenn í hlutastörf.“

Er verið að skoða að bæta við ferðum/skipi?
„Við höfum notað þetta ár vel í að tryggja starfsemina, komast yfir vaxtaverkina, veita viðskiptavinum okkar góða þjónustu og svo auðvitað skoða hvaða tækifæri séu í næstu skrefum. Viðtökur markaðarins hafa verið mjög góðar og það er ljóst að þörf var á nýrri þjónusta og annari flutningaðferð en með hefðbundum gámaflutningum. Smyril Line hefur komið inn með nýja leið fyrir inn- og útflytjendur í flutningum og í ljósi þess er verið að skoða ýmis næstu skref sem þó er of snemmt að ræða um nú á þessum tímapunkti.“

Nýjar fréttir