10 C
Selfoss
Home Fréttir Andleg áföll og ofbeldi

Andleg áföll og ofbeldi

0
Andleg áföll og ofbeldi
Bjarnheiður Böðvarsdóttir.

Að undanförnu hefur umræðan um áföll og áhrif þeirra á heilsu verið áberandi. Okkur er nú að verða ljóst að saga um áföll og ofbeldi fyrir 18 ára aldur getur haft áhrif á líkamlegt og andlegt heilsufar á fullorðinsárum. Dr. Vincent Felitti er bandarískur læknir sem gerði eina umfangsmestu rannsókn á afleiðingum áfalla í bernsku sem gerð hefur verið.

ACE rannsóknin, Adverse Childhood Experiences, eins og hún er kölluð, var gerð í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna á árunum 1995–1997. Niðurstöður hennar sýndu að 10 algengustu áföll sem fólk varð fyrir í bernsku eru áföll sem barn verður fyrir í nánum tengslum og innan veggja heimilisins (sjá:http://www.cdc.gov/violenceprevention/acestudy/about.html). Áföll s.s. heimilisofbeldi, fíknisjúkdómar eða geðrænir sjúkdómar í fjölskyldum, skilnaðir foreldra, fangelsun, tilfinningaleg eða líkamleg vanræksla, tilfinningalegt, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi, eru öll á listanum yfir þessi 10 algengustu áföll í bernsku. Rannsóknir sýna einnig að börn yngri en þriggja ára eru líklegust til að verða fyrir ofbeldi. Þetta hefur verið kallað hinn þögli faraldur. Það sem einnig vekur athygli er hversu algengt var að fólk hefði lent í einhverju af þessum áföllum. En yfir helmingjur þátttakenda hafði lent í a.m.k. einu áfalli en um fjórðungur þátttakenda hafði upplifað tvö eða fleiri áföll.

Þessi rannsókn hefur nú verið endurtekin með stærra úrtaki í Bandaríkjunum (440 þúsund einstaklingar) og í fleiri löndum sem staðfestir línulegt samband milli fjölda slíkra áfalla í bernsku og geðræns og líkamlegs heilsufarsvanda síðar á ævinni. Þessa rannsókn má heimfæra á íslenskt samfélag. Nú er í gangi rannsókn sem nefnist „Áfallasaga kvenna“.

Sem dæmi um afleiðingar þess að hafa orðið fyrir fjórum eða fleiri slíkum áföllum í bernsku þá aukast líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum, áhættuhegðun, geðröskunum og ótímabærum dauða. Ef áföllin eru sex eða fleiri styttist ævin um 20 ár.

Það er dýrkeypt fyrir samfélagið og einstaklinga/börn innan samfélagsins að taka ekki alvarlega á afleiðingum áfalla, sérstaklega hjá þeim sem verða fyrir þeim á barnsaldri.

Snemmtæk íhlutun þarf ekki að vera flókin eða dýr fyrir samfélagið. Það hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að ef heilbrigðisstarfsfólk mætir skjólstæðingum sínum af skilningi og samúð og gefur þeim tíma til að tjá sig um vandann eða áfallið, minnkar þörfin fyrir dýrari meðferð, s.s. bráðaþjónustu og innlagnir. Mikilvægt er að fólk leiti sér aðstoðar vegna áfalla.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Bjarnheiður Böðvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur heilsugæslunni á Selfossi.