6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Vetrarstarf Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu í fullum gangi

Vetrarstarf Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu í fullum gangi

0
Vetrarstarf Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu í fullum gangi
Séð yfir Hvolsvöll. Ljósmynd: Rangárþing eystra.

Sumarstarf Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu var með svipuðu sniði og undanfarin sumur. Boðið var upp á vatnsleikfimi með leiðbeinendum einu sinni í viku, bæði á Hellu og Hvolsvelli, og „púttað” á Strandavelli, einu sinni í viku. Félagar fá afnot af vellinum endurgjaldslaust, sem hér með er þakkað fyrir. Farið var í þrjár hópferðir sl. sumar, þ.e.dagsferðir í júní og ágúst og fjögurra daga ferð í júlí. Ágæt þátttaka var í öllum ferðunum.

Guðrún Aradóttir, formaður Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.

Félagið hélt árshátíð sína 3. október sl. á veitingastaðnum Kötlu mathúsi í LAVA eldfjallasetrinu á Hvolsvelli. Markar hún einskonar kaflaskil milli sumar og vetrarstarfs félagsins. Boðið var upp á fjölbreytta skemmtidagskrá með söng, leik og dansi, í umsjón skemmtinefndar félagsins. Á hátíðlnni veitti umsjónarmaður πpúttins“ verðlaun þeim einstaklingum sem skarað hafa fram úr í þeirri grein. Landsbankinn gaf verðlaunapeninga og bikar, eins og undanfarin ár og er þeim hér með þakkað fyrir.

En nú er vetrarstarfið í fullum gangi. Boccia spilað á mánudögum og miðvikudögum á Hellu, og á miðvikudögum og fimmtudögum á Hvolsvelli. Hringur, kór eldri borgara æfir alla mánudaga á Hellu. Spilað er á spil alla fimmtudaga, til skiptis á Hellu og Hvolsvelli. Ganga er í íþróttahúsinu á Hellu á föstudögum og í íþróttahúsinu á Hvolsvelli á þriðjudögum. Frítt er fyrir eldri borgara í líkamsræktartækin á Hvolsvelli á virkum dögum kl. 10:00–12:00. Þá er leikfimi á Hvolsvelli mánudaga og fimmtudaga. Útskurður í tré er alla föstudaga á Hvolsvelli. Almennt handverk er á Hellu, svo sem postulínsmálun, keramikmálun, glerlist o.fl., auk þess sem margir mæta með eigin handavinnu.

Héraðsnefnd Rangæinga styrkir starf FEB Rang. mjög myndarlega og gerir okkur kleift að halda úti því öfluga starfi og afþreyingu, sem raun ber vitni og færum við héraðsnefndinni bestu þakkir.j

Félagið hefur reglulega haldið fræðslufundi um hin ýmsu mál sem brenna á fólki og var það í samvinnu við þjónustuhóp aldraðra, sem nú hefur verið lagður niður samkvæmt reglugerð frá 1. okt. 2018 og fellur starfsemi hans undir öldungaráð. Samt sem áður ætlar félagið að halda áfram með slíka fræðslufundi og var einn slíkur haldinn mánudaginn 5. nóvember sl. í Menningarsalnum á Hellu. Á fundinn kom Halldór Gunnarsson, formaður Kjararáðs FEB Rang., og ræddi við um kjaramál eldri borgara. Nokkrar umræður sköpuðust um málefnið, enda af nógu að taka, því að léleg kjör margra eldri borgara brennur á fólki hér, sem annarsstaðar. Eftirfarandi áskorun til ríkisstjórnar Íslands var samþykkt á fundinum:

„Almennur fundur Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu, haldinn á Hellu 5. október 2018, skorar á ríkisstjórn Íslands að leiðrétta kjör lægst launuðu stétta landsins, öryrkja, hluta eldri borgara og verkafólks, með hækkun skattleysismarka og niðurfellingu frítekjumarks, þannig að fólk geti unnið fyrir launum án skerðingar.“
Stjórn og Kjararáð FEB Rang.

En nú erum við að sigla inn í dimmasta tíma ársins, sem getur líka verið notalegt, jólin handan við hornið, með sínum jólaljósum og fjölskyldufundum.

Megi veturinn verða okkur öllum mildur og góður.

Góðar stundir.
Guðrún Aradóttir, formaður FEB Rang.