7.3 C
Selfoss

Heimildarmynd um Landsmót á sambandssvæði HSK kynnt

Vinsælast

Héraðssambandið Skarphéðinn ákvað nokkru eftir Landsmótið á Selfossi 2013 að gera heimildarmynd um Landsmót UMFÍ sem haldin hafa verið á sambandssvæði HSK. Þau eru Haukadalur 1940, Hveragerði 1949, Þingvellir 1957, Laugarvatn 1965 og 1994 og Selfoss 1978 og 2013.

Marteinn Sigurgeirsson, kvikmyndagerðarmaður frá Selfossi, hefur lokið við gerð myndarinnar. Í myndinni er lögð áhersla á að spegla tíðarandann og þær miklu breytingar sem hafa orðið. Einnig þá miklu sjálfboðavinnu sem og þann mikla félagsanda sem einkennir mótin. Rætt er við fjölda keppenda og sjálfboðaliða. Þá er fjallað um fjölbreytt lista- og menningarlíf sem tengist þróttmiklu íþróttastarfi.

Útgáfu heimildarmyndarinnar var fagnað á Hótel Geysi í Haukadal sl. laugardag og þangað mættu rúmlega 50 manns. Hluti myndarinnar var sýndur og gestir nutu veitinga sem voru í boði Hótels Geysis. Vel fór á því að fagna þessum tímamótum í Haukadal, en á þeim stað voru Landsmótin endurvakin árið 1940.

Heimildarmyndin hefur verið fjölfölduð á DVD mynddiska sem verða til sölu á skrifstofu HSK og í Bókakaffinu á Selfossi. Áhugasamir geta einnig pantað disk og fengið sendan í pósti. Hægt er að panta disk hjá Engilbert framkvæmdastjóra HSK í síma 482 1189, eða á netfangið hsk@hsk.is.

Nýjar fréttir