3 C
Selfoss
Home Fréttir Mikilvægi góðra samskipta í parsambandi

Mikilvægi góðra samskipta í parsambandi

0
Mikilvægi góðra samskipta í parsambandi
Katrín Þorsteinsdóttir og Theodór Francis Birgisson.

Í grunninn má skipta parsamböndum í þrjá hópa, þá sem skilja eða slíta samvistum, þá sem hanga saman óhamingjusamir og síðan þá sem eru hamingjusamir. Okkar færustu sérfræðingar hafa sýnt fram á að einungis 25% para er í hópi þeirra hamingjusömu. Það er sorglega lágt hlutfall, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það er undantekningarlítið hægt að laga það sem illa fer í parsambandi og því þarf skilnaðartíðnin ekki að vera svona há. Þar vigta samskipti þyngst. Í lang flestum tilfellum eru það samskipti sem fara úrskeiðis þegar par steytir á skeri. Oftast er það vegna þess að einstaklingar eru í raun og veru ekki að tala saman þó að báðir séu að tala á sama tíma á sama stað. Tvær einræður verða nefnilega aldrei samræður. Samræður snúast um að einstaklingar nái að tjá sig og heyra hvað hinn aðilinn er að segja og beri virðingu fyrir upplifun hins aðilans. Það fer saman í heilbrigðum samskiptum að tala og hlusta, og þar er hlustunarþátturinn erfiðari en það að tala. Ástæðan er ofur einföld, þegar við hlustum höfum við tilhneigingu til að túlka það sem sagt var út frá gömlum sársauka og viðbrögð við því verður yfirleitt „gagnárás“. Sært fólk særir nefnilega aðra, og oftast erum við erfiðust við þá sem við búum með og elskum mest.

Þegar fólk upplifir pirring og reiði í samskiptum við maka eiga þær tilfinningar sér yfirleitt mjög djúpar rætur og þá er mjög algengt að fólk sé í raun að upplifa undirliggjandi tilfinningu eins og „ég upplifi að ég skipti engu máli fyrir þig“ og „þú ert aldrei stolt(ur) af mér“ eða þá „ég verð aldrei nóg fyrir þig sama hvað ég reyni“. Það er afar mikilvægt er að ná þessum tilfinningum upp á yfirborðið til þess að hægt sé að lækna undirliggjandi sársauka og parið nái að tala saman í uppbyggjandi samræðum. Það er forsenda þess að parsamaband blómstri og einstaklingar nái því að verða hamingjusamir saman.

Í parsamböndum þar sem parið nær að eiga heilbrigð samskipti verða orðin „ég elska þig“ ekki bara orð, heldur djúp tjáning raunverulegrar tilfinninga. Og þessar tilfinningar koma fram í orði og verki, í þessum smáu athöfnum væntumþykju og kærleika. Þar gildir að ég legg á mig vegna þess að ég elska þig, ég ber umhyggju fyrir þér, stend með þér og hvet þig áfram vegna þess að við erum teymi.

Góðu fréttirnar í þessum pistli eru að það eru nokkur laus pláss í hamingjusama hópnum og þú ert velkominn þangað. Allt sem þarf er vilji til heilbrigðra og nærandi samskipta við maka þinn.

Katrín Þorsteinsdóttir og Theodór Francis Birgisson (klínískir félagsráðgjafar).