1.7 C
Selfoss

Þegar góð hugmynd verður að vel heppnuðum veruleika

Vinsælast

Kirkjukór Hruna- og Hrepphólasókna er nýkominn heim eftir vel lukkaða ferð til Norður-Írlands, nánar tiltekið til LondonDerry en þar er ár hvert haldin kórakeppni eða festival, sem er opin öllum. Festivalið stendur í viku og víða um borgina eru kórar að syngja. Ekki er nauðsynlegt að keppa til að geta tekið þátt í þessari hátíð og með það fórum við. Ekki með keppni í huga, heldur að fá að syngja fyrir aðra og ekki síður að fá tækifæri til að hlusta á aðra kóra, hvaðanæva úr heiminum.

Þetta var sérlega skemmtileg upplifun, allt skipulag til fyrirmyndar og allar tímasetningar stóðust. Í Derry búa einungis 87.000 manns, svo fyrir Íslendinga var það frekar heimilislegt að koma til þessarar borgar. Bæjarstjórinn tók á móti okkur og hinum erlendu kórunum í Ráðhúsinu sem er staðsett í gamalli glæsilegri kirkju, en hefur nú öðlast nýtt hlutverk. Þar söng hver kór eitt lag um leið og hann var kynntur. Mjög skemmtileg athöfn og léttar veitingar í boði hjá gestrisnum Írum. Eðlilega urðu heimamenna að stytta þetta svakalega nafn sem kórinn ber og vorum við KKHH borið fram KeiKeiHíHí, þessum gátum við alltaf hlegið að.

Kórunum voru svo úthlutaðir staðir til að syngja á vítt og breitt um borgina og var upplifunin sérstök og skemmtileg því þarna var breiddin ótrúleg. Við fengum tár í augun þegar krakkar með Downs, sungu dægurlög þ.m.t. Abba, af innlifun sem við öll ættum að tileinka okkur og einnig snerti einhverja strengi þegar 8 konur frá lítilli eyju í 45 mínútna siglingarfjarlægð frá landi, sungu af einlægni sína dagskrá.

Hápunktur ferðarinnar var svo úrslitakvöld kórakeppninnar, en þar sungu 8 kórar til úrslita. Gríðarlegur metnaður þar á ferð og dómarar tóku hlutverk sitt mjög alvarlega. Sáum við tónkvíslina ganga upp og niður að eyrum dómara að tékka á hvort einhversstaðar væri fall í tóni. Urðum við pínu fegin að vera óbreyttir áheyrendur.

Keppnin stóð yfir í 3 tíma og voru sumir farnir að ókyrrast í setbeinunum. Engu að síður frábær upplifun og gaman að heyra ólíkan hljóm í kórunum sem í sumum tilvikum var hægt að rekja til upprunans. T.d. var eins og 40 Kósakkar væru komnir á svið þegar kórinn frá Lettlandi söng. Ungmennakór frá Colomíu heillaði alla viðstadda með frjálsum söng og líkamstjáningu í ætt við Indíána, engu að síður skiluðu þau klassískum skylduverkum með stakri prýði og uppskáru 2. sæti. Stórkostlegur kór frá Wales vann keppnina.

Svona ferð er ekki síst farin til að gera góðan hóp betri og á það sannarlega við í okkar tilviki. Glens og gaman einkenndi ferðina alla og metnaður til að gera sitt besta hvar sem við komum fram með okkar séríslenska prógramm. Fengum við ómælt lof fyrir og þó nokkrar fyrirspurnir af hverju við værum ekki að keppa. Ein eldri kona kom brosandi út að báðum eyrum og sagði: ,,I love your language“, eitthvað sem er alltaf svo gott að heyra.

Fullyrða má að þessi ferð var mjög lærdómsrík, og gaman að sjá hvað gríðarlegur metnaður er lagður í kórsöng víða um heim. Poppið er greinilega ekki allsráðandi J .
Stefán kórstjóri og okkar hægri hönd kom klyfjaður heim af hugmyndum og bíðum við kórfélagar spennt hvað úr verður.

Að endingu þakkar kórinn Sóknarnefndum Hruna- og Hrepphólasókna fyrir að styrkja okkur til þessarar frábæru ferðar.

Fyrir hönd KKHH, Magga S. Brynjólfsdóttir.

Nýjar fréttir