1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég væri til í að skrifa bók um líf bóndans

Ég væri til í að skrifa bók um líf bóndans

0
Ég væri til í að skrifa bók um líf bóndans
Hulda Brynjólfsdóttir.

Hulda Brynjólfsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fædd í Hreiðurborg í Flóa og alin upp þar. Hún hefur unnið við tamningar, skrifstofustörf, afgreiðslu, þjónustu, kennslu og búskap. Nú á hún og rekur smáspunaverksmiðjuna Uppspuna sem vinnur band úr ull ásamt því að starfa sem bóndi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er að lesa fræðirit Ásdísar Jóelsdóttur Íslenska lopapeysan sem fjallar um sögu lopapeysunnar og vinnslu ullar hér á landi. Þar sem ég vinn við ull og ullargarn þá vakti bókin áhuga minn. Ég vonast til að fræðast meira um lopapeysuna og uppruna hennar og hefðir fyrir notkun hennar, prjónamynstur og fleiru slíku.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Það hefur verið breytilegt í gegnum tíðina. En segja má að reynslusögur og fræðirit höfði mest til mín í dag. Gamansamar lygasögur eru líka alltaf hressilegar og gott að geta hlegið. Ég á það til að lifa mig nokkuð mikið inn í það sem ég les og get alveg skellihlegið ein með sjálfri mér og bókinni ef því er að skipta.

Ertu alin upp við bóklestur?
Ég varð fljótlega læs og með bók í hönd eða á hestbaki. Ég las svakalega mikið sem krakki og unglingur og fram á fullorðinsár en hef minnkað það mikið upp á síðkastið. Líklega er Bændablaðið og Hrútaskráin helsta lesefnið undanfarin ár. Ég gleypti í mig allar ævintýrabækur, Grimmsævintýri, sögur H.C Andersen, þjóðsögur Jóns Árnasonar, Morgan Kane og Ísfólkið og svo framvegis. Á unglingsárunum voru ástarsögur ansi vinsælar og glæpasögur sömuleiðis. En samhliða því voru fræðibækur um hestamennsku og frásagnir af góðum gæðingum lesnar upp til agna. Ásgeir frá Gottorp skrifaði Horfna góðhesta og það þóttu mér góðar bækur. Skáldsögur eftir íslenska höfunda hef ég margar lesið. Íslendingasögur og bækur Laxness eru skyldulesning að mínu mati og hef ég lesið þær margar en alls ekki allar. Pabbi var bókafíkill ef hægt er að orða það þannig. Hann átti stórt bókasafn og las mjög mikið, sumar bækurnar aftur og aftur. Sjálfstætt fólk var ansi slitin bók. Hann var alltaf lesandi þannig að ég ólst upp við lestur. Það kom líka fyrir að lesið var upphátt fyrir alla á heimilinu, og oft var lesið fyrir okkur krakkana, annað hvort eitt í einu eða öll saman. En það var nú oftar mamma sem sá um það. Ég fór í skólann úr Sandvíkurhreppnum með skólabíl í rúm 12 ár. Stundum þurfti maður að bíða eftir bílnum og þá var gott að komast inn í héraðsbókasafnið til Péturs og síðar Erlu en þar var gott að vera. Bíllinn stoppaði fyrir utan og var auðvelt að fylgjast með hvenær hann kom. Á meðan var setið og lesið. Þar hafði maður aðgang að fjölda bóka og gat tekið með sér heim.

Áttu þér uppáhaldsbók?
Ég held það sé engin ein bók í meira uppáhaldi en önnur en fyrir örfáum árum las ég bók eftir ameríska konu sem sagði frá daglegu lífi sínu í eitt ár á litlum búgarði. Ég er búin að skila bókinni og man ekki hvað hún heitir en hún var virkilega skemmtileg og höfðaði mikið til mín. Það var svo gaman að upplifa líf hennar í gegnum bókina og finna í rauninni svipaðar skoðanir, langanir og þrár í annarri heimsálfu. Mér þykir mjög gaman að glugga í fræðibækur sem tengjast því sem ég er að fást við hverju sinni og í dag er það ull og prjónaskapur. Ég skoða því mikið af slíku. Bæði á netinu og eins í bókarformi. Ég á vont með að lesa mikið í tölvu, þarf alltaf að hafa allt á blaði fyrir framan mig og helst að geta annað hvort krotað í bókina eða á eitthvað til hliðar. Netið er hins vegar hafsjór af fróðleik vilji maður læra eitthvað.

Hefur bók rænt þig svefni?
Ó já. Mörgum sinnum og margar. Ég hef oft farið að sofa um klukkan þrjú eða fjögur að nóttu af því ég hef þurft að klára bók. En ég hef ekki orðið andvaka eftir að hafa lesið bók.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Í kennslunni skrifaði ég nokkrar litlar bækur eða hefti til að hjálpa börnum að æfa lestur þegar fáir stafir eru komnir. Þær hafa nú ekki verið gefnar út nema í skólastofunni sem ég hef unnið í hverju sinni en ég held þær hafi hjálpað til. Það er svo sem margt sem væri gaman að skrifa um en svo er spurning hver hefur gaman af að lesa það. Því bækur eru jú skrifaðar til að einhver lesi. Ég væri til í að skrifa einhverskonar bók um líf bóndans í eitt ár. Árstíðirnar og störfin sem þeim fylgja, hugsanir, pælingar, uppákomur, erfiðleika, gleðistundir, reynslu og fróðleik. Svo óskaplega margir hafa fjarlægst sveitina að þeir átta sig ekki á hvernig lífið gengur þar fyrir sig. Ég held að það sé öllum nauðsynlegt að þekkja sveitina og það er okkar bændanna að upplýsa þá sem vita minna um okkar störf.