-6.6 C
Selfoss

Frumsamið lag sigraði í söngvakeppni ML

Vinsælast

Tíu söngatriði öttu kappi um Hljóðkútinn, verðlaunagrip Blítt og létt, en keppnin var haldin í íþróttahúsi Bláskógabyggðar 1. nóvember sl. Blítt og létt er söngvakeppni Mímis, Nemendafélags Menntaskólans að Laugarvatni.

Fjölmargir sóttu viðburðinn, nemendur, íbúar á svæðinu, kennarar og annað starfsfólk. Á svæðinu var hljómsveit sem spilaði undir lögum keppenda, en í nokkrum atriðum sáu flytjendur sjálfir um undirleik.

Dómarar í keppninni voru Karl Hallgrímsson, Karitas Harpa Davíðsdóttir og Árni Hjaltason. Þeirra beið vandasamt verkefni en sérhvert atriði var verðlauna virði. Úrslit urðu þó að lokum þau að í fyrsta sæti var frumsamið lag Ljósbráar Loftsdóttur og Laufeyjar Helgu Ragnarsdóttur, „Can’t hold it on“. Fyrir flutning sinn á laginu hlutu þær Hljóðkútinn. Í öðru sæti varð Glódís Pálmadóttir sem flutti lag Christinu Perri „Arms“. Þriðja sætið hlaut þríeykið Riddararaddir sem skipað er Þresti Fannari Georgssyni sem spilaði á gítar, Almari Mána Þorsteinssyni sem spilaði á bassa og Karen Heklu Grönli söngkonu. Þau eru öll nemendur í fyrsta bekk, en þau fluttu lagið „Toxic“ með Melanie Martinez. Að lokum var valið skemmtilegsta atriðið. Sú viðurkenning féll í hlut hljómsveitarinnar Þungavigtarmenn. Hljómsveitina skipa Ástráður Unnar Sigurðsson á hljómborð, Halldór Friðrik Unnsteinsson á trommur, Hörður Freyr Þórarinsson á bassa, Sölvi Rúnar Þórarinsson á rafmagnsgítar og Hermundur Hannesson söng og spilaði á gítar. Þeir eru allir nemendur úr þriðja bekk. Lagið sem þeir fluttu heitir „Leðurspáin“ með hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum. Kynnar keppninnar fóru á kostum um kvöldið en hefð er fyrir því að þau séu nemendur sem útskrifðuðst vorið áður. Það voru þau Sunneva Björk Helgadóttir og Sigurður Pétur Jóhannsson.

Nýjar fréttir