6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Að loknum Bleikum október

Að loknum Bleikum október

0
Að loknum Bleikum október

Eftir viðburðaríkan og skemmtilegan Bleikan október er margt sem þýtur í gegnum huga formanns Krabbameinsfélags Árnessýslu. Ef fáein orð ættu að vera lýsandi fyrir mánuðinn þá yrðu orðin samstaða, stuðningur, samhugur og efling fyrir valinu en ofar öllu væri það þakklæti!

Bleikur október er haldinn árlega til að vekja athygli á krabbameinum hjá konum, minna á mikilvægi þess að vera meðvitaður um einkenni krabbameina og leiðir til að passa uppá sjálfan sig ekki síður en náungann. Í ár var lögð sérstök áhersla á vinkonuhópinn, að efla hann til að standa saman, minna hvor aðra á krabbameinsleitina og sýna hvor annarri stuðning þegar vinkona greinist með krabbamein.

Krabbameinsfélag Árnessýslu er að eflast, stækka og verða sýnilegra. Í litlum skrefum hefur tekist að auka þjónustu í heimabyggð, stækka stuðningshópinn og styrkja tengsl innan félagsins. Áhersla hefur verið lögð á fræðslu og stuðning við aðstandendur ekki síður en þá krabbameinsgreindu og hefur félagið meðal annars staðið fyrir fjölbreyttum fyrirlestrum sem hafa staðið öllum til boða að kostnaðarlausu. Fyrirlestrarnir hafa verið vel sóttir og finnur félagið að slík fræðsla og þjónusta ef vel þegin í heimabyggð.

Í upphafi október var fána Bleiku slaufunnar flaggað á Ingólfstorgi sem og bleikar slaufur hengdar á nokkur tré á umferðareyjum á Austurvegi. Fjölmörg fyrirtæki tóku virkan þátt og skreyttu innan- sem utandyra í bleikum lit og fréttir bárust af góðri þátttöku á Bleika deginum þann 12. október. Góðu samstarfi við Selfosskirkju var haldið áfram og var Bleik messa haldin þann 28. október þar sem félagar Krabbameinsfélags Árnessýslu tóku virkan þátt, bæði í formi upplesturs og frásagnar. Ljósmyndasýningin Bleik var sett upp í andyri Krónunnar og þakkar félagið öllum þeim fyrirtækjum sem eiga hlutdeild að rýminu, fyrir velvild í garð félagsins með samþykki fyrir sýningunni. Að sýningunni stendur Krabbameinsfélag Íslands en tveir félagar úr Krabbameinsfélagi Árnessýslu tóku þátt í sýningunni og sögðu sögðu sína í máli og myndum.

Í lok mánaðar stóð Krabbameinsfélag Árnessýslu fyrir Bleiku boði sem haldið var í Tryggvaskála þann 26. október. Sex kvenna hópur, sem kallaði sig BleikuTútturnar sá um undirbúning, skipulag og framkvæmd. Bleika boðið var fjáröflunarleið félagsins til að efla þjónustu og starfsemi félagsins enn frekar auk þess sem horft var til þess að vekja athygli samfélagsins á félaginu. Viðtökur og þátttaka fór fram úr björtustu vonum og er hópurinn einstaklega þakklátur öllum þeim sem mættu í boðið og gerðu þar með þetta kvöld mögulegt. Í aðdraganda Bleika boðsins mátti alls staðar finna velvilja og jákvæðni til málstaðarins hvort sem leitað var eftir framlagi í formi happadrættisvinninga eða vinnuframlagi á einhvern hátt. Öllum þeim fyrirtækjum, einstaklingum og stofnunum eru færðar mikið þakklæti. Tryggvaskála eru færðar sérstakar þakkir fyrir þeirra ríkulega framlag en bæði húsnæði, vinnuframlag og veitingar voru í þeirra boði. Tónlistarfólki kvöldsins er einnig þakkað fyrir þeirra gjöf í formi vinnu og þátttöku í kvöldinu.
Einróma ánægja var að loknu Bleika boðinu og nokkuð víst að það verður haldið að ári!

Fyrir hönd félagsins sendi ég þakkir út í samfélagið. Það er ómetanlegt að finna samstöðuna og samhuginn sem ríkir í samfélaginu okkar og staðfestir enn betur að krabbamein kemur okkur öllum við.

Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu.