6.1 C
Selfoss

Tillögur um uppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg á Selfossi lagðar fram

Vinsælast

Fljótlega eftir sveitarstjórnarkosningar í vor óskaði nýr bæjarstjórnarmeirihluti í Árborg eftir því í samtölum við íþróttahreyfinguna að fá andrými til að vega og meta þær tillögur sem þegar voru komnar fram um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu við Engjaveg á Selfossi. Í því fólst meðal annars að fá að vita hverjar helstu óskir hreyfingarinnar væru og hvar mesta þörfin væri fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja. Í þeim samtölum kom fram að vilji hreyfingarinnar og helstu óskir væru þær að koma sem mest af starfsemi Umf. Selfoss fyrir á einum stað og að sem fyrst yrði farið í byggingu á fjölnota íþróttahúsi sem myndi nýtast knattspyrnu- og frjálsíþróttadeild auk annarra íþróttagreina sem mætti koma fyrir í húsinu.

Aðkoma Alark arkitekta
Í framhaldi af viðræðum við Umf. Selfoss var haft samband við Alark arkitekta sem hafa einna mestu reynslu hönnuða landsins í hönnun og skipulagi stórra íþróttamannvirkja á landinu. Þar má nefna Egilshöll í Reykjavík, íþróttasvæði Knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda, skipulag, framtíðarsýn og hönnun íþróttamannvirkja. Íþróttahús og sundlaug í Vík í Mýrdal, hönnun Iðu íþróttahúss Fjölbrautarskóla Suðurlands, fullnaðarhönnun og framtíðarskipulag Knattspyrnufélagsins Fram í Úlfarsárdal rétt fyrir hrun, forhönnun íþróttamannvirkja í Búðardal, forhönnun og útboðslýsing fyrir knatthús í Mosfellsbæ, sem og utanumhald um Kórinn í Kópavogi, auk fjölda skólaíþróttahúsa. Auk þessa hefur annar eigandi stofunnar verið meðlimur í Mannvirkjanefnd KSÍ frá árinu 1991.
Alark voru upplýstir um hverjar óskir Umf. Selfoss væru og fengu einnig í hendurnar fundargerðir og önnur gögn sem Ungmennafélagið hefur unnið að á undanförnum árum. Verkefni Alark var síðan að finna út úr því hvernig best væri og hagkvæmast að uppfylla óskir og þarfir Umf. Selfoss. Það skipulag sem nú hefur litið dagsins ljós er afrakstur þeirrar vinnu.

Skipulagstillagan
Skipulagstillaga Alark gerir ráð fyrir að hægt sé að byggja upp íþróttamiðstöð við Engjaveg í nokkrum áföngum hvar hinir ýmsu verkþættir geta unnist á ýmsa vegu bæði í tíma og rúmi. Fullbyggð mun íþróttamiðstöðin verða nálægt 22.000 fermetrum og kosta ríflega fimm milljarða króna á núvirði.
Það er öllum ljóst sem koma að þessu verkefni að hér er um framtíðarsýn að ræða sem ekki verður framkvæmd á einni nóttu, heldur á einhverjum árum þar sem röð verkþátta og framkvæmdahraði mun taka mið af óskum íþróttahreyfingarinnar og efnahag sveitarfélagsins hverju sinni.

Tómas Ellert tómasson.

Kosturinn við tillöguna er sá að hún uppfyllir óskir og þarfir íþróttahreyfingarinnar til langs tíma, ekki bara á Selfossi heldur í Svf. Árborg og á Suðurlandi öllu. Einnig er mögulegt að framkvæma hina ýmsu verkþætti á mismunandi tímum, auk þess sem að lokum verður til ein rekstrareining í stað margra sem dreifðar eru vítt og breitt um sveitarfélagið.

Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-lista í Svf. Árborg og formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar.

 

Kostnaður og stærðir
Íþróttamiðstöð við Engjaveg

Frumkostnaðaráætlun Alark.

Áfangi                                       Stærðir fm.               Kostnaður í þús. króna
Íþróttasalur – Handbolti/körfubolti     2.300                          782.000
Búningsklefar                                    560                           196.000
Forrými                                          1.460                           438.000
Skrifstofur/Samkomusalir                1.000                            300.000
Líkamsrækt                                     320                              99.200
Bardagaíþróttir                                700                             175.000
Geymslur                                        400                              92.000
Fimleikahús                                    2.000                           680.000
Fjölnota íþróttahús, 1. Áfangi           4.500                           675.000
Fjölnota íþróttahús, 2. áfangi           4.800                           720.000
Áhorfendastúkur/bún.klefar, frjálsar    550                           275.000
Áhorfendastúkur/bún.klefar, stækkun  550                           275.000
Áhorfendasvæði, lokun leikvangs       1.500                          150.000
Yfirbyggður aðalás                             650                            130.000
Samtals                                          21.290                       4.987.200

Upphitaður gervigrasvöllur með flóðl.   9.600                        124.800

Heildarkostnaður                                                              5.112.000

 

Ungmennafélagið fagnar metnaðarfullri framtíðarsýn

Framkvæmdastjórn Umf. Selfoss samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 15. október sl.:
„Ungmennafélag Selfoss fagnar metnaðarfullri framtíðarsýn sem kynnt hefur verið varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á Selfossvelli. Félagið lýsir yfir fullum stuðningi við að áfram verði unnið með þessar hugmyndir og þær verði útfærðar nánar með fulltrúum félagsins. Mikilvægt er að tryggja aðkomu allra notenda að hönnunarvinnu sem framundan er þ.m.t. að tekið verði tillit til ábendinga sem stjórn knattspyrnudeildar hefur gert grein fyrir. Þær snúa að því að breytingar verði gerðar á tímasetningum varðandi uppbygginguna og að skoðað verði hvort hægt sé að gera tilfærslu á húsinu til suðurs.
Ungmennafélag Selfoss telur að með þessum tillögum sé komin framtíðarsýn sem falli vel að fyrri hugmyndum félagsins og þær verði notaðar við frekari skipulagningu og uppbyggingu á svæðinu. Ungmennafélagið hvetur sveitarfélagið til dáða í uppbyggingu íþróttamannvirkja og mun hér eftir sem hingað til styðja við allar metnaðarfullar hugmyndir sveitarfélagsins.“

Nýjar fréttir