9.5 C
Selfoss

Kröfu Aldísar um ógildingu íbúakosninga í Árborg hafnað

Vinsælast

Kröfu Aldísar Sigfúsdóttur um ógildingu íbúakosninga í Sveitarfélaginu Árborg, sem fram fóru þann 18. ágúst síðastliðinn, var fyrir skömmu hafnað af Dómsmálaráðuneytinu. Jafnframt var kröfu um ógildingu úrskurðar nefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, dags. 12. september 2018, hafnað.

Niðurstöðu Dómsmálaráðuneytisins má sjá hér að neðan. Einnig má lesa um málsatvik á vef Dómsmálaráðuneytisins hér.

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er þess farið á leit við ráðuneytið að það ógildi bæði úrskurð nefndarinnar frá 12. september sl., sem og íbúakosningu í Sveitarfélaginu Árborg sem fram fór þann 18. ágúst sl., þar sem íbúakosningin hafi verið haldin slíkum annmörkum að hana beri að ógilda

Í hinum kærða úrskurði er skilmerkilega gerð grein fyrir lagagrundvelli málsins og vísar ráðuneytið til þess sem þar kemur fram og áréttar það að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna, sbr. 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

Ráðuneytið tekur undir niðurstöðu nefndarinnar um að ákvæði 108. gr. sveitarstjórnarlaga takmarki ekki heimild sveitarstjórnar í því tilviki sem hér er um ræða, þannig að henni hafi verið óheimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu að eigin frumkvæði, skv. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Það að í gangi hafi verið undirskriftasöfnun, á grundvelli 108. gr. laganna, þess efnis að efna til atkvæðagreiðslu um sama málefni og almennu atkvæðagreiðslunni var ætlað að ná til, takmarkar ekki vald sveitarstjórnar hvað þetta varðar. Löggjafinn hefur falið sveitarstjórnum, í krafti þess lýðræðislega valds sem þær hafa, að ákveða hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr. laganna en þær takmarkanir sem þar eru tilgreindar eiga ekki við í máli þessu.

Ráðuneytið telur óumdeilt í máli þessu að í kynningarbæklingi sem sveitarfélagið gaf út og dreifði til íbúa fyrir kosningarnar hafi ranglega verið fullyrt að svara þyrfti báðum spurningunum á atkvæðaseðlinum til þess að hann væri gildur. Í gögnum málsins kemur fram að af hálfu sveitarfélagsins hafi verið leitast við að leiðrétta þessar röngu upplýsingar og þá hafi yfirkjörstjórn brugðist við þessu með því að láta semja sérstakar kosningaleiðbeiningar sem hafi verið hengdar upp á öllum kjörstöðum. Ráðuneytið er sammála því mati nefndarinnar að annmarki að þessu leyti teljist ekki galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar og þá tekur það einnig undir mat hennar hvað varðar önnur atriði er lutu að ætluðum annmörkum á kynningarbæklingi þeim sveitarfélagið gaf út vegna íbúakosninganna.

Þá felst ráðuneytið ekki á það með kæranda að sveitarfélagið hafi vanrækt þá upplýsingaskyldu sem kveðið er á um í 2. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga og vísar í því sambandi til rökstuðnings nefndarinnar í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna ber sveitarstjórn að auglýsa hvar kjörská skuli lögð fram með þeim hætti sem vanalegt er að birta opinberar auglýsingar. Ekki er gerð krafa um að í auglýsingunni skuli tiltekið hverjir eigi kosningarrétt í viðkomandi kosningum. Í málinu er hins vegar óumdeilt að í auglýsingu sveitarfélagsins um framlagningu kjörskrár sem birt var á grundvelli fyrrgreindrar 2. mgr. 9. gr. laganna, var getið um kosningarrétt íslenskra ríkisborgara skv. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, en engar upplýsingar um að kosningarrétt ættu jafnframt þeir erlendu ríkisborgarar sem uppfylltu skilyrði 3. mgr. 2. gr. laganna. Ráðuneytið tekur undir með nefndinni að með þessu þá hafi einungis verið tiltekinn kosningarréttur hluta kjósenda og þannig hafi verið farið gegn ólögfestri meginreglu um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og geti almenn tilvísun í auglýsingunni til ákvæða laga um kosningar til sveitarstjórna ekki breytt því. Að þessu leyti er um annmarka að ræða, en ráðuneytið tekur undir mat nefndarinnar og vísar til rökstuðnings hennar í hinum kærða úrskurði þess efnis að annmarkinn hafi ekki verið með þeim hætti að hann teljist galli sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar.

Ráðuneytið tekur undir með nefndinni hvað það varðar að auglýsing um opnunartíma kjörstaða getur ekki gengið framar þeirri lagareglu sem tilgreind er í 66. laga um kosningar til sveitarstjórna um að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Niðurstaða ráðuneytisins er í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar um að tveir annmarkar hafi verið á undirbúningi kosninganna en að hvorugur þeirra geti valdið ógildingu kosninganna, sbr. 94. gr. laga nr. 5/1998 þar sem segir að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga, nema ætli megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Þá er það einnig niðurstaða ráðuneytisins að samanlögð áhrif framangreindra annmarka leiði ekki til þess að ógilda beri kosningarnar á grundvelli ákvæðisins.

Úrskurðarorð

Niðurstaðan er staðfest

Kröfu kæranda um ógildingu úrskurðar nefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, dags. 12. september 2018, er hafnað.

Kröfu kæranda um ógildingu íbúakosninga í sveitarfélaginu Árborg er fram fóru þann 18. ágúst 2018, er hafnað.

Nýjar fréttir