4.7 C
Selfoss
Home Fréttir Opið fyrir umsóknir í viðskiptahraðal á sviði ferðaþjónustu

Opið fyrir umsóknir í viðskiptahraðal á sviði ferðaþjónustu

0
Opið fyrir umsóknir í viðskiptahraðal á sviði ferðaþjónustu

Startup Tourism er viðskiptahraðall sem sérsniðinn er að þörfum nýrra fyrirtækja á sviði ferðaþjónustu. Verkefninu er ætlað að veita viðskiptahugmyndum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra.

Opið er fyrir umsóknir í hraðalinn til 3. desember á www.startuptourism.is.

Startup Tourism hefst þann 14. janúar 2019 og er þetta í fjórða sinn sem hraðallinn er haldinn. Tíu fyrirtæki verða valin inn og fá þau leiðsögn og þjálfun yfir tíu vikna tímabil ásamt skrifstofuaðstöðu í húsi Íslenska Ferðaklasans. Þar munu þátttakendur njóta ráðgjafar reyndra frumkvöðla, fjárfesta og lykilaðila innan ferðaþjónustunnar í þeim tilgangi að hraða þróun viðskiptahugmynda sinna og koma þeim á legg.

Óskað er eftir viðskiptahugmyndum sem hafa það að leiðarljósi að fjölga afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkja innviði greinarinnar og stuðla að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring.

Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar verður haldinn kynningarfundur 23. október kl. 12:00 í húsi Íslenska Ferðaklasans á Fiskislóð 10.

Bakhjarlar Startup Tourism eru Isavia, Íslandsbanki, Bláa Lónið og Vodafone, en Icelandic Startups og Íslenski Ferðaklasinn sjá um framkvæmd verkefnisins.