-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Leiðsögn og spjall um verkið Von og sýninguna Halldór Einarsson í ljósi samtímans

Leiðsögn og spjall um verkið Von og sýninguna Halldór Einarsson í ljósi samtímans

0
Leiðsögn og spjall um verkið Von og sýninguna Halldór Einarsson í ljósi samtímans
Birgir Snæbjörn Birgisson.

Sunnudaginn 21. október nk. kl. 15:00 mun listamaðurinn Birgir Snæjörn Birgisson spjalla við gesti í Listasafninu í Hveragerði um verk sitt Von sem saman stendur af máluðum portrettum af þeim alþingismönnum sem kosnir voru á þing vorið 2013. Það kallast á við verk Halldórs Einarssonar af alþingismönnunum lýðveldisárið 1944 sem hann skar í tré. Þessi tvö verk og mörg fleiri má sjá á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Auk þess að bjóða upp á samtal við Birgi mun Inga Jónsdóttir safnstjóri ganga um sýninguna, segja frá og svara spurningum gesta.

Með sýningunni er Listasafn Árnesinga að rýna í menningararfinn og lætur verk fjögurra núlifandi listamanna eiga í samtali við verk Halldórs og varpa á þau nýju ljósi á aldarafmæli fullveldis Íslands. Halldór Einarsson fæddist árið 1893 í Brandshúsum í Flóa. Hann lærði tréskurð og teikningu, en flutti árið 1922 til Vesturheims og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Meðfram þeirri vinnu skapaði hann mikinn fjölda verka í tré, stein og önnur efni. Eftir 45 ár ytra flutti Halldór aftur til Íslands og gaf Árnessýslu verk sín ásamt peningagjöf, en það var önnur tveggja stofngjafa Listasafns Árnesinga. Á sýningunni myndast óvæntar tengingar í ýmsar áttir, frá húsgögnum til bóka, handverki til náttúru, lækninga til stjórnmála, valdi til kvenna.

Sýningin hefur verið framlengd til 16. desember nk. og er safnið opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12–18, Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir.