-0.9 C
Selfoss

Sveitafélagið Ölfus í sókn

Vinsælast

Fimm þingmenn Suðurkjördæmis hafa hug á því að skipaður verði starfshópur til að móta stefnu um hvernig megi standa að innviðauppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn. Það sé liður í því að höfnin geti vaxið enn frekar sem inn- og útflutningshöfn. Blaðamaður hafði samband við Elliða Vignisson, bæjarstjóra í Ölfusi og bar málið undir hann.

Hvað myndi slík uppbygging hafa í för með sér fyrir sveitarfélagið Ölfus?
„Það er í mínum huga ljóst að þessi vegferð er hafin. Þorlákshöfn er nú þegar orðin sterk inn- og útflutningshöfn og starfshópur sá sem þingmennirnir kalla eftir myndi án vafa geta orðið okkur góður hluti af veganesti inn í framtíðina.  Flestir sem fylgjast með sjá að tækifæri hafnarinnar til vaxtar eru gríðarleg enda styttir hún siglingaleiðina inn á höfuðborgarsvæðið verulega eða um allt að sólarhring fram og til baka. Vöxtur hafnarinnar er síðan ein af þeim stoðum sem sveitarfélagið Ölfus ætlar sér að byggja á til framtíðar,“ segir Elliði.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni er vísað til góðs gengis Smyril Line Cargo sem hóf vöruflutninga til hafnarinnar í apríl á síðasta ári. Bent er á að tekjur hafnarinnar af inn og útflutningi séu langt umfram væntingar sem skipti miklu fyrir rekstur hafnarinnar. Þá segir að helsta ástæða góðs gengis verkefnisins megi rekja til þess að með tilkomu siglingaleiðarinnar hafi farmgjöld til og frá landinu lækkað flutingskostnað um 40%. Tollasvæði við höfnina er löngu sprungið en flutningar um höfnina eru langt umfram væntingar.

Hver er framtíðarmúsíkin hjá Ölfusi í þessum málaflokki, er eitthvað komið á teikniborðið?
„Hér búum við svo vel að nú þegar hafa farið fram viðamiklar rannsóknir og hönnun á stækkun hafnarinnar sem nú er hægt að kynna fyrir áhugasömum. Það hefur verið afar áhugavert að finna ríkan áhuga fjárfesta á framtíð Þorlákshafnar og við höfum einsett okkur að ræða af opnum huga við þá sem þennan áhuga sýna. Fjárfestar þekkja þau miklu tækifæri sem í Ölfusinu eru.  Það að hafa hér stærsta jarðorkusvæði á landinu, stærstu ferskvatnssvæði á landinu, nálægð við alþjóðaflugvöll, endalaust landsvæði og að vera í 30 mínútna fjarlægð frá höfuðborginni er einstakt. Þegar við bætist stór og öflug inn- og útflutningshöfn er ljóst að tækifærin eru rík. Við förum þó í engu óðslega, heldur ræðum við áhugasama, sama hvort það eru innlendir eða erlendir aðilar, og sama hvort það eru einkaaðilar eða ríkið.  Þótt við séum öflug hér í Ölfusinu og full af sjálfstrausti og trú á framtíðina þá vitum við líka að það getur verið hættulegt fyrir sveitarfélög að reisa sér hurðarás um öxl þegar kemur að fjárfestingum í hafnarmannvirkjum. Við sáum til að mynda hvað slíkt þýddi þegar tekjumódelið gekk ekki eftir í Reykjanesbæ. Í kjölfarið komst sveitarfélagið jafn nálægt gjaldþroti og mögulegt er fyrir sveitarfélag. Íbúar sáttu uppi með hækkað útsvar, niðurskurði á þjónustu o.fl. Þegar hér við bætist hversu erfitt er að fá ríkið að borðinu er vart að undra þótt við leitum nýrra leiða þótt sannarlega sé hvergi á vísan að róa.“

Random Image

Nýjar fréttir