1.7 C
Selfoss

Nýir rekstraraðilar teknir við Fákaseli í Ölfusi

Vinsælast

Hjónin Sindri, betur þekktur sem Sindri bakari, og Íris hafa skipt um gír en þau tóku við rekstri veitingastaðarins Fákasels í Ölfusi fyrir skömmu. Við hlið þeirra eru hjónin Agnes og Högni sem koma til með að sjá um hestatengda viðburði í Fákaseli en ætlunin er að vera með sýningar á íslenska hestinum. Agnes og Högni reka tamningarstöð á staðnum.

Hjónin AÍris og Sindri sjá nú um rekstur veitingastaðarins Fákasels í Ölfui.

„Það verða spyrtar saman sýningar og maturinn þar sem fólki er boðið upp á þessa heildarupplifun, koma og skoða flotta sýningu og borða góðan mat.“ segir Íris.

Aðspurð um matseðilinn segir Íris: „Við erum með hefðbundinn matseðil myndi ég segja, á honum er að finna hamborgara úr Black Angus kjöti og steikur og plokkfisk sem dæmi. Þá erum við með skemmtilegan barnamatseðil þar sem m.a. er hægt að fá grjónagraut og lifrarpylsu. Verðinu er stillt í hóf og skammtarnir þannig að enginn fer svangur heim. Við viljum hafa þetta pínu sveitó og ná sveitarómantíkinni inn á staðinn okkar.“

Þau Sindri og Íris ráku bakaríið Sindri Bakari á Flúðum. Íris segir að ákvörðunin um að loka hafi komið vegna þess að reksturinn hafi verið erfiður og þau þurft að stækka til þess að ná stærri hópum til sín, en þau voru með 17 sæti. Aðspurð hvort það sé ekki eftirsjá í bakaríinu segir hún svo vera; „Við lögðum allt okkar í þetta ævintýri og okkur tókst að skapa frábært vörumerki og gott bakarí, þannig að auðvitað er eftirsjá af því.“ Bæði hafa þau gaman af því að vera í rekstri og þau voru farin að horfa í kringum sig eftir tækifærum og þessi möguleiki kom upp og þau hoppuðu á það. „Þetta hefur farið ákaflega vel af stað, hópar búnir að bóka hjá okkur og fólk er að kíkja við hjá okkur. Við erum svo með ýmis plön á takteinunum eins og t.d. jólahlaðborð. Svo langar okkur líka að hafa „Villimannahlaðborð“ þar sem er blandað saman klassískum íslenskum mat eins og hrossabjúgum og villibráð í skemmtilegan bræðing.“

Ljóst er að það er hugur í þeim Írisi og Sindra og spennandi að fylgjast með þeim á nýjum vettvangi.

Nýjar fréttir