5 C
Selfoss

Allir velkomnir á hlaupaæfingar hjá Frískum Flóamönnum

Vinsælast

Hlaupahópurinn Frískir Flóamenn hefur undanfarin ár æft undir styrkri stjórn Sigmundar Stefánssonar járnkarls með meiru. Engin breyting verður á því í vetur, Sigmundur mun halda áfram að þjálfa hópinn á komandi vetri.

Mjög góð mæting er á æfingar og hlauparar stefna að mismunandi markmiðum á hlaupabrautinni. Margir taka þátt í keppnishlaupum en svo eru líka aðrir sem hlaupa sér fyrst og fremst til heilsubótar og skemmtunar. Æfingatímar hópsins eru á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 10:00. Allir eru velkomnir, byrjendur jafnt sem lengra komnir og er frítt á allar æfingar.

Hópurinn hefur í 15 ár unnið við brautargæslu við Laugavegshlaupið og það hefur gert hópnum kleift að greiða þjálfaralaun og standa fyrir ýmis konar viðburðum eins og Sólheimahlaupinu, fjöruhlaupi, aðventuhlaupi og þorrapizzu, svo fátt eitt sé nefnt. Þá hafa Frískir Flóamenn séð um Jötunhlaupið sem haldið er 1. maí ár hvert í samstarfi við Jötun Vélar.

Tíu félagar fóru til Tallin

Björk og Sigmundur í Tallin. Mynd af Fcebook-síðu FF.

Tíu félagar úr hópnum fóru á dögunum til Tallin í Eistlandi og tóku þátt í maraþoni þar í borg. Átta úr hópnum hlupu hálft maraþon en tveir hlupu heilt maraþon, þ.e. þau Sigmundur Stefánsson og Björk Steindórsdóttir. Sigmundur var fyrstur í sínum aldursflokki, hljóp á tímanum 3:37:30 og Björk setti HSK-met í sínum aldursflokki er hún hljóp á tímanum 3:58:24. Hópurinn hefur áður farið í hlaupaferðir til útlanda m.a. til München haustið 2015. Stefnt er að ferð haustið 2019 en ekki er búið að taka ákvörðun um hvert skal halda.

Það er von Frískra Flóamanna að áhugasamir hlauparar sem ekki hafa áður æft með hópnum skoði þennan möguleika. Allir geta hlaupið á hvaða aldri sem er og það er aldrei of seint að byrja að hlaupa. Æfingarnar hefjast alltaf við Sundhöll Selfoss/World Class. Frískir Flóamann hlakka til að sjá sem flesta á æfingum í vetur.

 

Nýjar fréttir