9.5 C
Selfoss

Mjög ánægjulegt en kom svolítið flatt upp á okkur

Vinsælast

Sveitabúðin Una á Hvolsvelli fékk nýlega viðurkenningu sem næstbesta ferðamannaverslunin á Suðurlandi á eftir versluninni Geysi í Haukadal. Una var valin svokölluð „Runners up“ ásamt Wool Gallery í Vík. Viðurkenningin var birt í sérstakri útgáfu af tímaritinu The Reykjavík Grapevine.

„Þetta kom svolítið flatt upp á okkur. Það kom hérna ferðamaður inn í búðina og óskaði okkur til hamingju. Við vissum fyrst ekki fyrir hvað. Þá fletti hún upp í tímaritinu Grapevine og sýndi okkur. Það hefur síðan mikið af fólki komið til okkar út af þessari umfjöllun,“ segir Magnús Haraldsson, annar eigenda Sveitabúðarinnar Unu á Hvolsvelli.

Hjónin Rebekka Katrínardóttir og Magnús Haraldsson tóku við rekstri Sveitabúðarinnar Unu á Hvolsvelli í janúar síðastliðnum af systrunum Völu og Hildi. Framkvæmdir á gamla kaupfélagshúsinu þ.e. breytingar á Kjarval í Krónuverslun stóðu þá sem hæst og lauk ekki fyrr en um páska. Magnús segir að þá hafi umhverfið í raun verið eins og iðnaðarsvæði og því frekar dauflegt um að vera hjá þeim í versluninni fyrstu mánuðina.

„Við notuðum tímann til að endurskoða vöruúrvalið og breyttum því svolítið. Við erum t.d. núna með ritföng og reikningahefti sem vantaði á svæðið. Annars eru áherslurnar í rekstrinum mjög svipaðar og þær voru. Við erum ekki með neina ferska matvöru en ákváðum að einbeita okkur að gjafavörum, minjagripum og handverki. Við erum með lopapeysur, vettlinga, húfur og lopavörur. Ef fólk kemur og kaupir efni í heila peysu hjá okkur bjóðum við 10% afslátt. Við hvetjum líka alla hérna úti sem luma á handverki að hafa samband. Við viljum endilega hafa samskipti við alla sem eru laghentir og listfengnir og athuga hvort ekki sé hægt að selja eitthvað frá þeim,“ segir Magnús.

„Viðskiptavinir okkar eru aðallega útlendingar, en líka eitthvað íslenskir ferðamenn. Heimafólkið er í auknum mæli að koma hingað m.a. af því að við erum búin að bæta í gjafavöruna. Það vantaði gjafavörur hér á svæðið til dæmis leikföng. Við erum búin að bæta í það og ætlum að bæta enn frekar. Svo stendur til að vera með íslenskan sælkeramat fyrir jólin. Við verðum þá með villtan lax, grafinn og reyktan, osta og hangilæri og eitthvað svoleiðis. Við verðum jafnvel með jólakörfur sem fólk og fyrirtæki geta keypt og gefið sem gjafir.“

Magnús er úr Garðabænum en Rebekka ólst upp í Miðtúni í gamla Hvolhreppi frá 12 ára aldri, ásamt móður sinni Katrínu Óskarsdóttur og stjúpföður Eysteini Fjölni Arasyni. Móðir Rebekku er fædd og uppalin í Hvolhreppi og á Rebekka því sterkar rætur til Hvolsvallar. Þau Magnús og Rebekka keyptu sér hús og fluttu á Hvolsvöll fyrir tæpum þremur árum. Magnús segir að þau séu mjög ánægð með það og að það sé gott að búa á Hvolsvelli. Þau horfa björtum augum til framtíðarinnar með reksturinn á Hvolsvelli.

Nýjar fréttir