7.3 C
Selfoss

Prins Alpanna með tónleika á Laugarvatni 30. september

Vinsælast

Nikolaus Kattner, austurrískur tónlistarmaður, mun halda tónleika í Gallerí Laugarvatni sunnudaginn 30. september nk. kl. 18.00. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Milli Vínarskógar og Norðurljósa“.

Nikolaus kom í fyrsta skipti til Íslands fyrir tuttugu árum og fyrstu nóttinni eyddi hann á tjaldsvæði á Laugarvatni. Það er því táknrænt að undanfarin sumur hefur hann unnið á Lindinni á Laugarvatni.

Nikolaus var búsettur á Íslandi í fimm ár, en er nú fluttur til Austurríkis. Hann kemur til Íslands á hverju sumri til að vinna í tónlist ásamt vinum sínum og býr sem fyrr segir á Laugarvatni. Hluti af launum hans er að hann fær að nota veitingasal Lindarinnar sem æfingastúdíó. Á Laugarvatni líður honum sérlega vel, hefur eignast marga vini og segir umhverfið listrænt og nærandi. „Þar má nefna Gullkistuna, aðsetur listamanna, og náttúruna sjálfa.Útsýnið yfir vatnið, Hekla í allri sinni dýrð og Eyjafjallajökull næra sköpunargáfuna þegar ég er að vinna í eigin tónlist,” segir hann.

Nikolaus var 28 ára þegar hann ákvað að koma til Íslands en hann byrjaði að læra tungumálið í München áður en hann kom fyrst til landsins. Það sem Nikolaus ákveður eru aldrei orðin tóm og hann talar nánast lýtalausa íslensku.

Hann lærði leiklist í Vínarborg og ólst upp í mjög tónelskri fjölskyldu. Hann hafði alltaf hug á leggja tónlistina fyrir sig, en þegar hann ákvað að gerast tónlistarmaður kunni hann ekki svo mikið sem eitt grip á gítar. Með ótrúlegri elju og aga náði hann fljótlega undraverðum tökum á hljóðfærinu. Það liðu þó 20 ár áður en hann hélt sína fyrstu tónleika. Þeir voru haldnir á Geysi í Haukadal þar sem hinn kunni tónlistarmaður Pálmi Sigurhjartarson spilaði með honum.

Nikolaus tók sína fyrstu plötu upp með Pálma hjá Ásgeiri úr Stuðmönnum í Stúíói Ásgeirs. Platan heitir „Train of life“ og Tommi Tomm, blessuð sé minning hans, sá um mixið.

Jón Magnússon, okkar eini, sanni götuspilari Jójó, hefur kennt Nikolausi hljómfræði í bráðum 10 ár og er helsti stuðningsmaður hans.
„Ég tók líka upp plötu hjá Vilhjálmi Guðjónssyni 2012. Platan heitir „Der dunkle Kasperl“. Á þeirri plötu eru lög eftir Jójó, með textum sem ég þýddi yfir á þýsku. Mér finnst gaman að vinna með íslenska texta því íslenskan er svo litrík og falleg. Ég reyni að tapa ekki upprunalega textanum og íslenskum menningararfi í þýðingunum,“ segir Nikolaus.

Nikolaus kallar sig „austurríska víkinginn“, sem ferðast milli Vínarskógar og Norðurljósa á hverju ári. Og það er líka þemað á tónleikunum í Gallerí. Þar flytur hann blöndu af eigin efni, svo og rokk- og poppsmelli síðustu áratuga.Þá verður hann með jass og þjóðlög í bland.

„Ég er með hljómsveit heima í Austurríki og við ferðumst mikið um landið og höldum tónleika. Sömuleiðis höfum við haldið tónleika í Þýskaland, Ítalíu og Sviss.“

Þess má geta að Nikolaus hefur tekið upp þrjú lög hjá Vilhjálmi Guðjónssyni á þessu ári, „Global Lady“, sem er væntanlegt framlag Austurríkis í Eurovision 2020, og „Kirschen“, sem er austurrískt þjóðlag. „Ég vil helst vinna með með tónlistarfólki sem er ósmitað af klassískum útgáfum í Vínarborg,“ segir hann brosandi. Og af því minnst var á Eurovision er gaman að segja frá því að Nikolaus var sérstaklega hrifinn af lagi Eyjólfs Kristjánssonar „Ég lifi í draumi“. Nikolaus hefur því skrifað þýskan texta við lagið, sem er þriðja lagið á nýju plötunni. Nikolaus heldur sig í þýðingunni við íslenska textann og Eyjólfur er hæstánægður með þýðinguna, sem Nikolaus gaf honum í afmælisgjöf.

Nýjar fréttir