1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Nú brosir nóttin fór á topp metsölulistans

Nú brosir nóttin fór á topp metsölulistans

0
Nú brosir nóttin fór á topp metsölulistans

Hin rómaða ævisaga Nú brosir nóttin, sem kom í búðir í síðasta mánuði, rauk beint í fyrsta sæti metsölulista Eymundsson, stuttu eftir að hún kom út.

Höfundur bókarinnar er Theódór Gunnlaugsson á Bjarmalandi í Öxarfirði en hann skráir hér sögu vestfirsku refaskyttunnar Guðmundar Einarssonar. Guðmundur var goðsögn í lifanda lífi. Hann var náttúrubarn sem litið var upp til fyrir einstaka hæfileika. Hér er líst samskiptum manns við náttúruna, væntumþykju og virðingu fyrir sköpunarverkinu.

Guðmundur ólst upp við kröpp kjör á seinasta aldarfjórðungi 19. aldar. Hann lýsir hér föðurmissi og erfiðri lífsbaráttu barns sem líður slíkan skort að vöxtur þess stendur í stað árum saman. Uppkominn varð Guðmundur samt eftirsóttur fyrir hreysti og harðfengi en einnig næmi á eðli náttúrunnar. Lífsviðhorf Guðmundar refaskyttu og umhverfisvitund eiga fullt erindi við samtímann.

Bókin Nú brosir nóttin kom út árið 1960 en hefur ekki verið endurútgefin fyrr en nú. Auk upprunalegu ævisögunnar birtast hér í hinni nýju útgáfu viðaukar sem varpa frekara ljósi á líf refaskyttunnar, bæði skrif um Guðmund og skrif eftir hann sjálfan. Aftast í bókinni er kafli þar sem greint er frá samskiptum Guðmundar og Katrínar Gunnarsdóttur vinnukonu en þau eignuðust saman fjögur börn. Eftir það slitnaði upp úr sambandi þeirra og Guðmundur gekk að eiga Guðrúnu Magnúsdóttur sem varð hans lífsförunautur. Saman eignuðust þau hjónin 17 börn og alls eru afkomendur Guðmundar nú nærri 1500 talsins.