Nýlega tók Gísli Halldór Halldórsson við starfi bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Árborg. Dagskráin heimsótti Gísla í liðinni viku og bað hann að segja aðeins frá sjálfum sér og þeim málefnum sem eru efst á baugi í Árborg.
Miðbærinn og skólamálin
„Stóru málin í dag eru miðbærinn og skólamálin í nýja Björkustykkinu. Nú fer Sigtún Þróunarfélag ehf. að hefjast handa við að byggja upp miðbæinn. Þá þarf að vera ljóst að allir séu á sömu blaðsíðunni, þ.e. að bæjaryfirvöld og Sigtún þróunarfélag ehf. séu að tala saman um það hvernig þetta á að gerast. Við hyggjumst stofna með þeim samstarfshóp til að fara yfir alla hluti þess máls þannig að allir séu samstíga. Þarna verði birtar fundargerðir svo íbúar geti fylgst með og séð hvernig málinu vindur fram.“
Uppbygging í Bjarkarhverfi
„Annað stórt mál er uppbygging í nýja Bjarkarhverfinu og þá ekki síst skólinn. Bæði Vallaskóli og Sunnulækjarskóli eru búnir að sprengja húsnæðið utan af sér. Við þurfum nauðsynlega á meira skólahúsnæði að halda. Við erum að vinna með hugmyndir um að koma á fót bráðabirgðahúsnæði þ.e. að byggja upp Bjarkarskóla úr lausum skólastofum til að byrja með á meðan við erum að byggja varanlegt húsnæði sem mun auðvitað taka töluverðan tíma. Við þurfum rými fyrir fleiri skólanemendur strax á næsta ári. Þetta eru virkilega stóru verkefnin.“
Þörf á auknum mannafla
„Í nánustu framtíð þarf síðan að endurskoða mönnun víða í sveitarfélaginu, hér í ráðhúsinu, hjá Veitunum og víðar, því það hefur svo margt vaxið og breyst. Það er víða orðin mikil þörf á auknum mannafla. Við sjáum hversu gríðarleg úthlutun er á byggingalóðum og öðru slíku. Þetta eru stór verkefni fyrir embætti byggingafulltrúa.“
Innviðir og ný Ölfusárbrú
„Síðan þurfum við auðvitað líka að berjast fyrir nýrri Ölfusárbrú. Einnig eru fleiri verkefni sem við þurfum að vinna varðandi innviðina eins og að klára ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins að fullu og svo auðvitað aðalskipulagið. Þar þurfum við að tryggja að það þjóni íbúunum sem best, þannig að vöxtur sveitarfélagsins í náinni framtíð verði okkur til farsældar en ekki þannig að það sé verið að keyra yfir okkur.“
Tækifæri niður á Strönd
„Ég vona að við getum styrkt og byggt upp staðina niður við Strönd sem viðkomustaði fyrir gesti. Það má flikka upp á garða og ljúka göngustígum, bæði niður eftir og á milli þorpanna. Ég held að það séu mikil tækifæri fyrir þá sem heimsækja Árborg að við bjóðum þá velkomna niður á strönd líka. Þar erum við núna að ræða við Mílu um að ljúka við að koma fólki á Eyrarbakka í betra samband. Það vantar tengiskáp sem við myndum gjarnan vilja sjá svo allir verði í góðu sambandi.“
Fæddur á Ísafirði
Gísli er fæddur á Ísafirði árið 1966. Hann er ættaður úr Ísafjarðardjúpi þar sem faðir hans Halldór Hermannsson fæddist en hann var bróðir Sverris Hermannssonar fyrrverandi alþingismanns. Móðir Gísla er Katrín Gísladóttir, fædd á Ísafirði en ættuð að austan. Gísli er giftur Gerði Eðvaldsdóttur og þau hjónin búa núna á Hvoli á Eyrarbakka. Þau eiga þrjú börn, Erling Fannar Jónsson, Katrínu Maríu Gísladóttur og Tómas Ara Gíslason sem öll eru flutt að heiman. Það er líka kominn hópur af barnabörnum.
Viðskiptafræðingur með meistaragráðu í haf- og strandsvæðastjórnun
„Ég hef búið alla mína tíð á Ísafirði nema þegar ég fór í nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands í lok níunda áratugarins. Ég kláraði viðskiptafræðina 1991 og fluttist síðan ásamt konunni aftur til Ísafjarðar. Meistaragráðu mína sem er í haf- og strandsvæðastjórnun, tók ég við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði. Háskólasetrið er undir hatti Háskólasetursins á Akureyri. Háskólinn á Akureyri tekur út það nám og vottar,“ segir Gísli.
Ýmis störf við rekstur á Ísafirði
Fyrst eftir að Gísli kom úr námi starfaði hann við fjölskyldufyrirtækið Sund ehf. sem rak fiskvinnslu og stofnaði fyrsta fiskmarkaðinn á Ísafirði. Þaðan fór hann yfir í rafverktakann Straum sem er sambærilegt fyrirtæki við Árvirkjann á Selfossi. Þar var Gísli verslunar- og skrifstofustjóri í tæp tólf ár. Eftir það réð Ólína Þorvarðardóttir, sem þá var skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, hann sem fjármálastjóra Menntaskólans. Var hann jafnframt fyrsti fjármálastjórinn við skólann. Þetta var í kringum 2004.
Bæjarfulltrúi tvö kjörtímabil
Gísli var spurður um aðkomu sína að bæjarmálum á Ísafirði. „Árið 2006 gaf ég í fyrsta skipti kost á mér sem bæjarfulltrúi á Ísafirði og náði kjöri. Þannig að ég byrjaði í bæjarstjórn 2006. Þá varð ég strax um veturinn starfandi formaður bæjarráðs. Einnig var ég á móti Birnu Lárusdóttur forseti bæjarstjórnar það tímabil. Við vorum til skiptis ár í senn. Kjörtímabilið 2010–2014 var ég aftur bæjarfulltrúi og var með sama hætti forseti bæjarstjórnar á móti Albertínu Elíasdóttur sem er nú alþingismaður. Ég var einnig þá í bæjarráði.“
Bæjarstjóri á Ísafirði 2014–2018
Gísli segir að á þessum tíma hafi byggst upp mikil reynsla hjá sér í bæjarmálunum. „Ég var formaður ýmissa nefnda á þessum tíma, félagsmálanefndar t.d., fræðslunefndar, varaformaður í skipulags- og bygginganefnd og leiddi auk þess ýmsa starfshópa. Árið 2014 ákvað ég að hætta að gefa kost á mér sem bæjarfulltrúi. Við komumst að samkomulagi ég og Í-listinn á Ísafirði að ég yrði bæjarastjóraefni listans. Í þeim kosningum þ.e. 2014 fékk Í-listinn hreinan meirihluta í fyrsta skipti og réð mig í framhaldinu sem bæjarstjóra. Ég var því bæjarstjóri í fjögur ár eftir að hafa hætt sem fjármálastjóri hjá Menntaskólanum. Bæjarstjórastarfið á Ísafirði var frábært og skemmtilegt starf.“