8.4 C
Selfoss
Home Fréttir Gagnrýnin og málefnaleg umræða er nauðsynleg

Gagnrýnin og málefnaleg umræða er nauðsynleg

0
Gagnrýnin og málefnaleg umræða er nauðsynleg
Eggert Valur Guðmundsson.

Nú eru liðnir þrír mánuðir frá því að nýr meirihluti fjögurra framboða tók við stjórnartaumunum í Svf. Árborg, og hvað er svo að frétta frá því að þetta samstarf varð til? Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg sendi frá sér grein i þessu blaði fyrir stuttu sem gekk út á að nýr meirihluti væri ekki að gera nokkurn skapaðan hlut og upphaf greinarinnar var HVAÐ ER AÐ FRÉTTA? Það á auðvitað vera hlutverk þeirra sem sitja í minnihluta í sveitarstjórnum hverju sinni að rýna til gagns og veita aðhald. En það skiptir máli hvernig sú gagnrýni er framsett og hugsanlega er erfitt fyrir þá sem lengi hafa verið við völd að átta sig á hvernig það er best gert, svo árangur verði af. Þeir sem stjórna sveitarfélagi verða að þola gagnrýni, ef fólk þolir ekki slíkt eiga menn að finna sér eitthvað annað að gera. En gagnrýnin verður að vera sett fram á heiðarlegan og málefnalegan hátt, það hefur vantað uppá það að undanförnu hjá fulltrúum minnihluta bæjarstjórnar að mínum dómi. Við verðum að geta tekist málefnalega á um hvaða leiðir og ákvarðanir eru bestar fyrir Svf. Árborg, á sögulegum uppgangstímum í sveitarfélaginu, og sneiða framhjá illmælgi og lágkúrulegum athugasemdum.

Eftirsóknarvert sveitarfélag
Stærsta verkefnið er að takast á við þann veruleika að þrátt fyrir auknar útsvarstekjur eru að þær ekki duga fyrir þeim fjárfestingum sem þarf að ráðast í á næstu árum. Það sem nefnilega helst er að frétta er að miklar fjárfestingar eru framundan hjá sveitarfélaginu, þar er uppbygging nýs hverfis í Björkustykki með byggingu grunnskóla o.fl. eitt af stærstu málunum. Áframhaldandi uppbygging íþróttamannvirkja, auk þess er framtíðarlausn í fráveitumálum óhjákvæmileg, markmið nýs bæjarstjórnarmeirihluta er að þeim framkvæmdum verði lokið á kjörtímabilinu. Í ört vaxandi sveitarfélagi er eðlilegt að fram komi ákveðnir vaxtaverkir. Í Svf. Árborg má segja að staðan sé mjög sérstök, íbúum hefur fjölgað mjög hratt sem er auðvitað gleðilegt og ótvíræð áskorun á nýja bæjarstjórn um að grunnþjónusta sveitarfélagsins verði eins og best gerist. Á dögunum var gengið til samninga við Harald Líndal, fyrrverandi bæjarstjóra í Hafnafirði, um að hann vinni fyrir bæjarstjórn úttekt á rekstri og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ég er sannfærður um niðurstaða þeirra vinnu eigi eftir að bæta vinnulag og verða gott hjálpartæki fyrir stjórnendur við að búa til fyrirmyndarsveitarfélag sem íbúar geta verið stoltir af. Ég skora á fulltrúa minnihluta bæjarstjórnar að taka þátt í þeirri vinnu sem framundan er með uppbyggilegri hætti en verið hefur fram að þessu, þeim sjálfum og íbúum sveitarfélagsins til heilla.

Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Árborgar.