7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Hulda hefur þrisvar sinnum keppt á EM í frjálsum

Hulda hefur þrisvar sinnum keppt á EM í frjálsum

0
Hulda hefur þrisvar sinnum keppt á EM í frjálsum
Hulda kastar kúlunni fumlaust á EM fatlaðra 2018.

Frjálsíþróttakonan Hulda Sigurjónsdóttir er alin upp undir Eyjafjöllunum á bænum Mið-Mörk. Hún á langan feril að baki í frjálsum íþróttum, var 6 ára hnáta þegar hún byrjaði að æfa frjálsar og fann sig strax í greininni. Um 10 ára aldurinn var kúluvarp orðin uppáhaldsgreinin. Aðspurð hvað það heilli mest við kúluna stendur ekki á svari: „Það sem heillar mig fyrst og fremst við kúluna er tæknin á bak við greinina, ná tökum á tækninni og ná árangrinum fram. Það er alveg heilmikil vinna í þessu sem er svo skemmtileg.“

Hulda keppir fyrir hönd Íþróttafélagsins Suðra en æfir með afrekshópi Ármanns. Einnig hefur hún keppt fyrir Íslands hönd í flokki F20 sem er flokkur þroskahamlaðra og er með tvö stórmót að baki; EM 2102 og EM 2016 og Grandprix mótum IPC. Nú er hún nýkomin heim frá sínu þriðja Evrópumóti, með kast upp á 9,40 metra og 7. sætið upp á vasann. Íþróttakonan er ánægð með árangurinn og sagði að loknum úrslitum: „Ég tek því rólega í dag og fer svo strax í það að undirbúa mig fyrir HM á næsta ári“.

Krafturinn, áræðnin og gleðin sem fylgir Huldu er áberandi ásamt hlýju brosinu. Það kom því ekki á óvart að hún hefði verið valin sem fyrirliði kvenna á nýloknu Evrópumóti. Aðspurð um hvaða þýðingu það hefði að vera fyrirliði segir Hulda: „Það að vera fyrirliði kemur til með að nýtast mér vel. Minn draumur er að finna þessa ungu krakka sem eru kannski á sama stað og ég var þegar ég var að byrja og hjálpa þeim áfram. Sýna þeim að allt er hægt. Ég var t.d. á EM núna og stefni á HM eftir ár.“ Það er ljóst að hún brennur fyrir íþróttinni en brennur einnig fyrir því að miðla af þekkingu og reynslu sinni til annarra.

Þegar horft er yfir íþróttasögu Huldu er ljóst að þar fer einstaklingur með skýr markmið og einbeitingu. Markmiðið er að komast á Ólympíuleikana 2020. Aðspurð um hvað það er sem liggur að baki góðum árangri kemur svarið um hæl: „Ég hugsaði með mér að í vetur hefði ég sennilega æft meira en venjulegt fólk sefur,“ segir Hulda hlæjandi. Æfingarnar snúast ekki bara um að kasta kúlu endalaust heldur lyftir hún lóðum tvisvar á dag, hleypur til að ná upp þoli og sprengikrafti. Það er ljóst að hér fer skeleggur íþróttagarpur sem ætlar sér stóra hluti.