11.7 C
Selfoss

Ljósakvöld í Guðbjargargarði í Múlakoti

Vinsælast

Laugardagskvöldið 1. september nk. kl. 20:00 efnir Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti til árlegs Ljósakvölds í Guðbjargargarði í Múlakoti í Fljótshlíð. Með Ljósakvöldinu vill félagið minnast gamalla tíma í Múlakoti, þegar ræktunin, hótel- og veitingareksturinn og listfengi húsráðenda báru hróður staðarins um land allt. Jafnframt vill Vinafélagið fagna því sem áunnist hefur við að bæta hús og garð.

Í sumar hafa þök elsta hússins frá 1897, skúrbyggingarinnar norðan við húsið og milligangsins milli fyrsta og annars byggingaráfanga gömlu húsasamstæðunnar verið endurviðuð og lagt á þau nýtt bárujárn. Í Guðbjargargarði var gamall, ónýtur grasbekkur við austurvegg fjarlægður. Lysthúsið í garðinum, sem var að hruni komið, er horfið og steyptur hefur verið sökkull undir endurreist lysthús, stétt verið hellulögð og lagðar þökur. Fyrirhugað er að nemendur í Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum leggi enn lið við að bæta garðinn meðal annars með gerð nýrra gróðurbeða.

Á ljósakvöldinu verða ný garðhúsgögn tekin í notkun. Þau eru smíðuð úr 100 ára gömlum reynitrjám garðsins. Björn Bjarnason, formaður Vinafélagsins, býður gesti velkomna klukkan 20:00. Þá flytur Vigdís Jónsdóttir sagnfræðingur ávarp. Grétar Geirsson á Áshóli leikur á harmonikku milli atriða og fram verður borið kaffi og ástarpungar. Þátttökugjald er 1.000 kr. sem rennur óskipt til uppbyggingar gamla hússins. Ókeypis fyrir börn. (Enginn posi). Klæðnaður eftir veðri.

Fjölmenni hefur verið undanfarin ár og stemningin í ljósum prýddum garðinum í anda hinna rómuðu Múlakotsstemningar fyrri ára. Allir eru velkomnir og heimamenn sérstaklega hvattir til að mæta.

Nýjar fréttir