6.7 C
Selfoss

Rakarastofan 70 ára í dag

Vinsælast

Rakarastofa Björns og Kjartans í Miðgarði á Selfossi fagnar í dag miðvikudaginn 15. ágúst 70 ára afmæli rakarastofunnar. Á sömu tímamótum eru einnig 50 ár síðan Björn Ingi Gíslason hóf störf hjá fyrirtækinu.

Gísli Sigurðsson rakarameistari kom á Selfoss 15. ágúst árið 1948 með rakarastofu sína og opnaði á Eyravegi 7 í verslunarhúsnæði Hildiþórs Loftssonar.

Gísli Sigurðsson rakarameistari, söngmaður og eftirherma og frumherjinn kom á Selfoss 15. ágúst árið 1948 með rakarastofu sína og opnaði á Eyravegi 7 í verslunarhúsnæði Hildiþórs Loftssonar. Stofuna rak hann til ársins 1953 þegar hann flutti í nýbyggt íbúðarhús sitt að Kirkjuvegi 17. Þar bjó Gísli ásamt Rannveigu Sigríði konu sinni og tveimur sonum Birni Inga og Gylfa og rak svo rakarastofuna í forstofuherbergi hússins.

Björn Ingi sonur Gísla hóf störf árið 1968 á stofu föður síns þegar hann fór að kenna heilsubrests. Gísli lést 5. júní árið 1970. Björn Ingi tók við rekstrinum og flutti rakarastofuna þann 4. desember árið 1971 á Eyraveg 5.

Emilía Granz, Elísabet Pálsdóttir, Kjartan sonur Björns og Heiðdís Einarsdóttir, lærðu fagið á rakarastofu Björns á Eyraveginum. Árið 1995 keypti sonur Björns, Kjartan helmingshlut í rakarastofunni sem þá hét rakarastofa Björns Gíslasonar.

Þann 14. nóvember 1997 fluttu þeir feðgar stofuna í Miðgarð á Austurvegi 4 og fljótlega eftir það breyttist nafn stofunnar í Rakarastofa Björns og Kjartans. Árið 1999 hóf Björn Daði Björnsson nám hjá Kjartani eldri bróður sínum sem þá var orðinn meistari í faginu.

Árið 2006 keypti Björn Daði sig inn í fyrirtækið og eiga þeir feðgar þrír fyrirtækið saman í dag. Starfsmenn eru fimm. Auk eigendanna er það Guðrún Þórhallsdóttir og í sumar kom svo Mohammad Alibo til starfa. Hamm kom ásamt fjölskyldu sinni sem flóttamaður frá Sýrlandi til starfa og er að hefja nám á haustmánuðum í faginu.

Á afmælisdaginn, þ.e. í dag miðvikudaginn 15. ágúst, verður opið hús og viðskiptamenn og vinir frá liðnum árum velkomnir í kaffi og afmælisköku á rakarastofunni. Síðar í haust hyggjast feðgarnir boða til sérstaks afmælisfagnaðar með viðskiptamönnum sínum þar sem farið verður yfir sögu fyrirtækisins og menn gera sér glaðan dag.

Nýjar fréttir