8.9 C
Selfoss
Home Fastir liðir Nauta T-bone steik með tilheyrandi

Nauta T-bone steik með tilheyrandi

0
Nauta T-bone steik með tilheyrandi
Hjörtur Leví

Ég vil byrja á því að þakka Sylvíu Karen fyrir þessa skemmtilegu áskorun. Hef beðið spenntur eftir því að verða fyrir valinu.

Þegar kemur að eldamennsku í eldhúsinu er ég yfirleitt ekki í aðalhlutverki, heldur hálfgerður aukahlutur þar sem konan mín er mikill meistari þar. En þegar kemur að því að grilla þá er ég á heimavelli, hvort sem það er sumar og sól eða ég þarf að moka mér leið í snjónum að grillinu sem liggur í skaflinum úti á palli.

Það sem mér finnst skemmtilegast að grilla eru stórar og þykkar nautasteikur eins og t.d. T-bone, þannig að ég kem með eina einfalda og fljótlega uppskrift sem klikkar aldrei.

Allt sem þarf:

T-bone steik (reikna má með ca. 350 g per mann þó margir sem ég þekki telji það illa þrifinn disk og vilja fá meira í sinn maga)
Salt og pipar (Ég nota salt frá Saltverki sem heitir LAVA SALT)
Stórar grillkartöflur
Sætar kartöflur
Kókosolía
½ piparostur (frá MS)
½ villisveppaostur (frá MS)
½ lítri rjómi
Sveppir (½ box)
Sulta (mæli ég með blandaðri berjasultu frá St. Dalfour)
Smjör
Nautakjötskraftur
Sósujafnari

Kartöflurnar:

Það fyrsta sem við gerum er að skera kartöflurnar í sneiðar (ca. 1 cm þykkar) og leggja niður á álpappír. Ég bræði 3-4 msk. af kókosolíu og helli yfir kartöflurnar ásamt því að salta þær örlítið.
Þessu loka ég með álpappírnum og set inn í ofn eða á grillið.

Á meðan grillið er að hitna byrjum við á því að græja sósu sem er uppáhalds með nautasteikinni:

Skerið sveppina í bita (stærð fer efir smekk) og steikið þá í miklu smjöri.
Því næst hellum við rjómanum í pott og bræðum ostana í honum, en það gengur hraðar fyrir sig ef við skerum þá niður í sneiðar eða rífum þá. Þegar osturinn er orðinn bráðinn er tímabært að setja sultana út í (ca. 1 msk.) ásamt nautakjötskrafti og blanda vel saman við. Þar næst fara sveppirnir út í sósuna.
Gott er að þykkja sósuna með sósujafnara eftir þörfum svo hún tolli nú á steikinni þegar að henni kemur.

Þá kemur að kjötinu:

Við byrjum ekki að grilla fyrr en mikill hiti er kominn í grillið þar sem við ætlum ekki að láta kjötið liggja lengi á grillinu. Við byrjum á að setja pipar á steikina (gott er að vera búinn að því ca. 1-2 klst. fyrr) og grillum hana í u.þ.b. 2-3 mín. á hvorri hlið og yfirleitt er þá örlítill safi úr kjötinu farinn að leka niður sem myndar nokkuð öflugar eldtungur og nýtum við þann eld til þess að fá stökkt og örlítið brennt yfirborð, meðan kjötið helst meyrt og safaríkt að innan. Hver um sig þarf þó að finna þann tíma sem honum hentar, allt eftir því hvort steikin á að vera „well done, medium, rare eða bleu“. Gott er að láta steikina standa í 3-4 mín. áður en hún er borin fram og þá fyrst saltar hver og einn sína sneið eftir smekk.

Þó ég sé ekki mikill „salat-maður“ þá kem ég með eina góða uppskrift að einföldu salati sem kemur skemmtilega á óvart og passar vel með steikinni:

Klettasalat

Perur

Kasjúhnetur

Gráðaostur

Döðlukurl (má sleppa)

Skera perurnar og gráðaostinn í bita og blanda þessu svo bara öllu saman.

 

Svo er að sjálfsögðu yfirleitt krafa um eftirrétt á mínu heimili og bjarga ég mér með því að skutlast með fjölskylduna á Huppu.