6.1 C
Selfoss

Fagháskólanám í leikskólafræðum hefst á Suðurlandi í haust

Vinsælast

Vorið 2017 voru kynntar niðurstöður könnunar sem gerð var í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólafélag Suðurlands og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um eftirspurn eftir fjarnámi á háskólastigi á Suðurlandi.

Ýmislegt áhugavert kom úr þeirri könnun en það sem stóð upp úr eftir fundinn var sú mikla þörf á fagmenntuðum leikskólakennurum/starfsfólki á leikskólum.

Á sama tíma var Háskóli Íslands að hefja undirbúning fyrir umsóknir um þróun náms í hinum ýmsu fagháskólafræðum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og var ákveðið að í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands yrði sótt um þróunarverkefni í leikskólafræðum á fagháskólastigi.

Í upphafi undirbúningsferilsins var send út könnun á sunnlenska leikskólastarfsmenn (þá sem ekki eru fagmenntaðir leikskólakennarar) til þess að kanna nánar áhuga þeirra á svona námi og sýndi hún fram á að ef slíkt nám yrði keyrt sem fjarnám með staðarlotum á Suðurlandi og með stuðningi frá vinnuveitanda væru um 73% líkur á að viðkomandi starfsmaður færi í slíkt nám.

Nú ári seinna, og mun fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir, hefur þetta nám verið þróað og til stendur að hefja kennsluna nú á haustdögum.

En hvað er fagháskólanám í leikskólafræðum

Hugtakið fagháskólanám stendur fyrir nám á svokölluðu 4. stigi og er tilraun til þess að brúa það nám framhaldsskóla sem ekki endar með stúdentsprófi, yfir í háskólanám.

Sá hópur sem horft er til inn í þetta nám er oftar en ekki með nokkurt nám að baki í framhaldsskóla og í fullorðinsfræðslu og með starfsreynslu í faginu. Til þess að meta getu einstaklinga til þátttöku í náminu verða verkfæri hæfnigreininga og hæfnimats nýtt og hefur sá þáttur verið unnin í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Um er að ræða tveggja ára tilraunaverkefni þar sem námið er skipulagt sem fjarnám með vinnu ásamt  staðbundnum lotum/dögum á Suðurlandi og mun Háskólafélag Suðurlands halda utan um námið í samtarfi við HÍ. Náminu lýkur með diplómu en getur einnig nýst sem hluti af B.Ed gráðu í leikskólakennarafræðum.

Nánari upplýsingar um námið og umsóknarferlið er að finna á heimasíðu Háskólafélagsins www.hfsu.is, einnig er hægt að senda póst á hfsu@hfsu.is eða hafa samband í síma 560 2040/2042

Nýjar fréttir