6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Byggð í gömlum stíl en nýju samhengi

Byggð í gömlum stíl en nýju samhengi

0
Byggð í gömlum stíl en nýju samhengi

Við ætlum að reisa nýjar byggingar á miðbæjarreit Selfoss sem móta umgjörð um lifandi starfsemi og renna stoðum undir iðandi mannlíf. Þær verða raunverulegar og fjölbreyttar, í smáum og vinalegum mælikvarða.

Ákvörðunin um að sækja minni í íslenska byggingararfleifð byggir á gaumgæfilegri íhugun; nákvæmu vali á húsum sem hafa illu heilli orðið eldi að bráð eða horfið vegna skilningsleysis samtímans á gildi húsverndunar og byggingasögulegri arfleifð. Eitt markmið verkefnisins er að nýta byggingararfinn; endurskapa horfnar byggingar og stilla þeim saman í nýju samhengi.

Algeng efnistök í listum

Þessi efnistök eru algeng í listum. Klassísk stef og lög ganga í endurnýjun lífdaga í persónulegri nálgun og nýjum útsetningum sbr. Vísur Vatnsenda-Rósu. Leikverk og klassískar sögur eins og Njála eru endurtúlkuð af leikstjórum sem búa við listrænt frelsi til að flutnings þeirra með nýjum hætti. Listamenn hafa endurtúlkað sagnaminni og fyrirmyndir í verkum sínum um aldir sbr. efnistök og ritstíl nóbelskáldsins í Gerplu. Í byggingarlistinni hafa arkitektar sótt efnivið í söguna, túlkað og mistúlkað snið og reglur til að skapa nýja umgjörð um líf og athafnir fólks á hverjum tíma.

Módernisminn mistókst

Í sviðslistum og tónlist, mynd- og ritlist hefur aldrei leikið vafi á réttmæti persónulegra efnistaka, mikilvægi nýsköpunar og endurtúlkunar. En í skamman tíma í sögulegu samhengi hafa margir arkitektar stundað hreinlífistúlkun á því hvað sé þóknanlegt, rétt og rangt. Módernisminn gerði kröfu um að forðast fyrirmyndir byggingarlistararfsins; sérhvert mannvirki átti að fela í sér nýsköpun, án sögulegrar skírskotunar. Módernistar horfðu framhjá mikilvægi samhengis í byggðarmynstri með þeim afleiðingum að bæjarkjarnar risu andvana, sálar- og samhengislausir. Í samtímanum er verið að rífa fjölmarga bæjarkjarna byggðum á hugmyndafræði módernismans – einmitt vegna þess að þar þrífst hvorki líf né listir.

Ávinningur sagnaarfsins

Ávinningurinn af því að leita fyrirmynda í sagnaarfinum er margþættur. Fallegar byggingar eru nýttar sem efniviður í nýjan veruleika – nýja sögu. Tækifæri skapast til eflingar menningartengdrar starfsemi með sögum af horfnum húsum og mannlífi, en flutningur húsa milli landshluta er einmitt ríkur hluti þeirrar sögu. Tækifæri gefst til mótunar fjölbreytilegs umhverfis með ríka geymd, lykil að góðum staðaranda sem höfðar til íbúa Selfoss, gesta og ferðamanna. Opnun glatkistunnar skapar fjölbreytni sem er óhugsandi væri sama byggð mótuð samkvæmt spilareglum módernismans. Sögulegar tengingar við einstök hús og tilgang þeirra laðar að fjölmörg verslunar- og þjónustufyrirtæki sem sjá tækifæri í verkefninu til að styrkja og efla atvinnulíf á Selfossi – einmitt vegna þess að sótt er í glatkistu byggingararfsins.

Samfélagslegur ávinningur

Ávinningurinn af uppbyggingunni skapar ný atvinnutækifæri fyrir við söfn og menningarviðburði, fjölbreytt störf í verslun og þjónustu, sem efla fjölbreytt mannlíf og styrkja samfélagslega innviði Selfoss. Umgjörðin mun veita heimamönnum, gestum og ferðamönnum innsýn í söguna, fjölbreytt og aðlaðandi umhverfi, nýja og fjölbreytta þjónustu, upplifun sem verður staðbundin og eftirsóknarverð.

 

Það er trú aðstandenda verkefnisins að uppbygging miðbæjarkjarnans á Selfossi muni styrkja og efla bæinn sem eftirsóknarverðan ákvörðunarstað, menningarbæ og þjónustukjarna heimamönnum og gestum til heilla.

 

Jón Ólafur Ólafsson arkitekt og vottaður verkefnastjóri hjá Batteríinu arkitektum