-0.9 C
Selfoss

Keilir æfir á Selfossflugvelli

Vinsælast

Glöggir íbúar á Suðurlandi hafa líklega orðið varir við æfingaflugvélar frá flugakademíu Keilis fljúga um Suðurlandið. Skólinn hefur fengið afnot af flugvellinum á Selfossi fyrir kennsluvélar sínar. Flugkennararnir búa í íbúð á Selfossi. Pontus Willby, flugkennari er frá Svíþjóð og mun búa hér í eina viku. Nemendurnir eru flestir frá Reykjavík og það skiptir nemendurna litlu máli hvort aka þurfi til Keflavíkur eða til Selfoss í flugskólann, það er svipuð vegalend.

Nokkrar ástæður eru fyrir því að hafa aðstöðuna á Selfossi að sögn Pontus. „Fyrst og fremst gerir það okkur kleyft að nýta tímann á skilvirkari hátt. Á Keflavíkurflugvelli er umtalsvert meiri umferð um flugvöllinn sem setur okkur strangar skorður um hvenær við megum taka á loft og fleira. Þetta getur þýtt að við þurfum að bíða lengi niðri á jörðinni eftir leyfi fyrir flugtaki. Hér á Selfossi er þetta töluvert einfaldara með að komast í loftið. Það tekur okkur einhverjar mínútur. Hver kennslutími er um 2 klukkustundir og það saxast af honum hver mínúta sem við eyðum ekki í loftinu við kennslu. Þetta er mun betri nýting á tímanum hér“. Pontus heldur áfram; „Það skiptir líka máli að þegar við tökum á loft í Keflavík tekur það okkur um 25 mínútur að fljúga til dæmis hingað og byrja kennsluna. Þá fara þarna 25 mínútur hvora leið ekki í beina kennslu heldur er það ferðatími, við að koma okkur á staðinn. Þessi tími kannski vannýtist ekki en hann er ekki stíf kennsla heldur bara eins og við værum að ferðast í bíl hingað“. Marteinn Urbancic flugnemi bætir við; „Aðalatriðið sem snýr að mér er auðvitað að ég fæ mikið meira út úr hverjum tíma. Það sem mér finnst þó skipta enn meira máli er að hér eru gríðarlega mörg tækifæri til fjölbreyttra æfinga sem rúmast vel innan kennslustundarinnar. Sem dæmi er stutt að fara á aðra flugvelli til að æfa lendingar og prófa mismunandi velli. Örstutt er bæði á Hellu og til Vestmannaeyja á flugvellina þar. Jafnvel er ekkert mál að fara á Sandskeið til æfinga þar. Það er stutt að fara í allar áttir og tíminn nýtist mér því vel.

Pontus tekur fram að einnig sé vert að líta til aðstöðunnar. „Völlurinn er í góðu ásigkomulagi og vel hirtur. Umhverfið er fallegt og snyrtilegt. Það er stórt atriði fyrir okkur líka. Aðstaðan er í raun til fyrirmyndar“.

Aðspurðir að því hvort verið sé að æfa fyrir einkaflugmannspróf eða atvinnuréttindi er svarið flókið fyrir blaðamann. Tæknilegar lýsingar á flugskírteinum og prófnöfnum setja blaðamann fljótlega út á græna grund. Pontus og Marteinn brosa út í annað og segja; „Í einföldu máli má segja að Marteinn fái aldrei einkaflugmannsprófið sem slíkt. Hann tekur í raun svokallað samtvinnað atvinnuflugmannsnám. Nemandinn byrjar því í raun strax á fyrsta degi í þjálfun til atvinnuflugmanns án þess að hafa lokið einkaflugmannsnáminu. Að náminu loknu hefur hann svo leyfi til þess að fljúga atvinnuflug eða einkaflug eftir því sem hann langar“.

Flugvélarnar sem notaðar eru til kennslunnar eru svokallaðar Diamond kennsluvélar. Þær eru hátækniflugvélar smíðaðar úr koltrefjaefnum sem gerir mögulegt að hanna lögun þeirra eftir loftaflsfræðilegum þáttum til að hámarka afköst og styrk. Koltrefjaefni eru tildæmis notuð í Boeing 787 og Airbus 380. Alls býr skólinn að því að eiga 10 svona vélar ásamt flughermi.

Random Image

Nýjar fréttir