2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Trójuhestur

Trójuhestur

0
Trójuhestur
Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég hef tekið þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn breytingu á aðal- og deiliskipulagi miðbæjar Selfoss í komandi íbúakosningu því ég er á þeirri skoðun að bæði aðalskipulagið og deiliskipulagið feli í sér skipulagslega áhættu, Trójuhest, sem felist í því að að framkvæmdaaðilar muni fá of frjálsar hendur um hvernig þeir hagi útliti bygginga á svæðinu.

Einhverjir eru hlynntir byggð húsa í sögulegum stíl á miðsvæðinu og telja að með samþykki verði slíkt útlit tryggt á svæðinu öllu. Svo er að öllum líkindum ekki. Þeim sem efast um þessar staðhæfingar er bent á að kynna sér skipulögin betur. Þeim er einnig er bent á pistilinn „Heildstætt svipmót miðbæjar Selfoss gæti skapað verðmæti til framtíðar“ á blogginu mínu ragnargeir.blog.is. Neðst í þessum pistli er ljósmynd af bréfi. Í bréfinu er að finna rökstudda túlkun bæjarlögmanns á deiliskipulaginu samþykkta af þáverandi meirihluta skipulags- og byggingarnefndar. Þar er eftirfarandi málsgrein: „Í umræddri deiliskipulagsbreytingu var ákveðið að gera ekki fastmótaðar útlitskröfur á byggingum. Framkvæmdaaðilar hafa því frjálsar hendur með hvernig þeir haga útliti bygginga á svæðinu innan marka laga og reglugerða. Skipulags- og byggingarnefnd skal meta útlitshönnun bygginga en markmiðið er fjölbreytt yfirbragð byggðar eins og fram kemur í kafla 3.4 í greinargerð deiliskipulagstillögunnar.“

Hætt er við að þrátt fyrir varnaglana tvo, þann í aðalskipulaginu sem segir að byggðin eigi að taka mið af núverandi byggð og hinn í deiliskipulaginu sem segir að skipulags- og byggingarnefnd skuli meta útlitshönnun bygginga, að með tíð og tíma verði byggðin á skipulagsreitnum fjölbreyttari en góðu hófi gegnir. Ég læt lesendum eftir að ímynda sér hvað hægt væri að gera annað en að byggja eftirlíkingu af miðaldakirkju.

Markmiðið um fjölbreytt yfirbragð byggðar er vísbending um að það aðhald sem skipulögin ættu að veita framkvæmdaaðilum á svæðinu sé ekki nægilega sterkt. Þetta er hægt að laga með því að fella tillögurnar og búa til nýjar sem standa betri vörð um sérkenni byggðarinnar, ramma inn heildstætt svipmót svæðisins sem myndi kallast á við þau hús í sögulegum stíl sem standa á miðsvæðinu og í nágrenni þess. Þannig gæti heildstætt svipmót miðbæjar Selfoss skapað verðmæti til framtíðar.

Ragnar Geir Brynjólfsson
Var fulltrúi í skipulags- og byggingarnefnd svf. Árborgar 2014-2018.