-2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Uppspuni er spennandi nýjung í ullarvinnslu

Uppspuni er spennandi nýjung í ullarvinnslu

0
Uppspuni er spennandi nýjung í ullarvinnslu

Það var síðsumars 2017 sem smáspunaverksmiðjan Uppspuni tók til starfa. Svona starfsemi er algerlega ný af nálinni á landinu. Eigendur verksmiðjunnar eru Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson bændur í Lækjartúni í Ásahreppi. Aðspurð hversvegna þau fóru út í þetta verkefni brosir Hulda og segir; „Er þetta ekki bara einhver bilun?“ Verkefnið var þó kærkomin viðbót við búskapinn. „Við vorum að leita að verkefnum sem við gætum bætt við búskapinn. Við erum sauðfjárbændur með um 280 ær. Sauðfjárbúskapur er þung búgrein eins og staðan er orðin og nauðsynlegt að gera eitthvað meira með. Það er orðið þannig að einn eða báðir aðilar vinna utan búsins og framleiða svo mat fyrir landann í hjáverkum. Ég var farin að selja ullina beint og óunna til þeirra sem eru að handspinna. Þá handspann ég svolítið sjálf sem ég seldi líka, en afköstin eru ekki mjög mikil í því.“ Hulda varð vör við mikinn áhuga á íslensku ullinni erlendis og í raun yfir því hvað þetta hráefni er magnað. Það þarf að hefja ullina til þeirrar virðingar sem hún á skilið. Ullin okkar er mjög sértök og góð. Það er mikill áhugi á henni og hún ætti að vera verðlögð eftir því. Við teljum gott fyrir greinina alla að geta nýtt ullina betur og að hærra verð fengist fyrir hana en nú.

Það var vinkona Huldu sem spurði hana hvers vegna hún færi ekki út í það að vera með svokallað Mini Mill (ísl. Smáspunaverksmiðja). Þetta var í nóvember 2016. Hugtakið hafði hún ekki heyrt um áður. Hún nefndi þetta við Tyrfing, manninn sinn,  að þetta hefði verið nefnt við sig. Með hjálp veraldarvefsins var Mini Mill slegið inn í leitarstikuna og fljótlega komust þau í samband við Kanadískt fyrirtæki sem framleiðir litlar spunavélar. Því meira sem þau skoðuðu vélarnar og hvað þær geta gert, því meira heilluðust þau að þessum búnaði. Mánuði síðar, í desember 2016, var búið að panta vélarnar.

Hvaða munur er á þessum vélum og hefðbundnum spunavélum? „Vélarnar eru smærri í sniðum og afköstin eru minni en hjá þessum stóru aðilum. Stærri spunaverksmiður afkasta líklega hundruðum kílóaa á dag eða meira, við erum í 8 til 14 kg á dag þegar vel gengur. Við getum líka tekið minni einingar í einu. Sem dæmi vinn ég heilmikið fyrir aðra, við semsagt tökum ull fyrir aðra og vinnum í band. Ég get tekið hverja kind fyrir sig, unnið ullina af henni og skilað henni merktri til baka. Þægilegast er þó að taka þrjár kindur saman. Þær væru af sama lit og ullinni bladað saman. Þegar ég geri fyrir mig þá flokka ég saman kindur. Ef ég tek svartar sem dæmi þá eru ekki allar alveg svartar þó við séum heppin að eiga dálítið af hreinsvörtum kindum. Þá eru þær grásvartar og mósvartar eða hærusvartar sem kallað er. Ég flokka svo þessa liti og set saman í einn pott, hvern fyrir sig. Af 4-5 kindum er hún að fá eina lotu og einn tón.

Hver er helsti munurinn á ykkar garni og stærri aðila? „Munurinn á okkur og t.d. Ístex er að við erum með 100% hreina íslenska ull og ólitaða. Semsagt í sauðalitunum. Ístex verður að lita sína ull. Það kemur til af því að þeir afhenda nákvæmlega sama lit milli ára þannig að það verður að vera á hreinu að alltaf sé allt eins og hægt að ganga að því. Við erum hinsvegar með minna og bara með litina sem kindurnar gefa. Það sem er til núna, er til þar til það selst og svo verður það kannski ekkert endilega til aftur í sama tón. Það er engin leið að ábyrgjast það að mórauði liturinn í ár sé eins og mórauði liturinn á næsta ári jafnvel þó við séum með sömu kindina. En svo hef ég aðeins verið að leika mér með jurtaliti og þá það sem er hér í grenndinni. Það er mjög fallegt og kemur skemmtilega út.

Garnið okkar er einnig mýkra en fólk á að venjast. Það helgast mikið til af því að við erum með vél sem tekur ofan af sem kallað er. Hún tekur grófu hárin frá fínni hárunum eða með öðrum orðum tekur togið frá þelinu. Vélin tekur megnið af toginu frá. Við gætum fjarlægt það alveg, en við viljum hafa aðeins með af því. Það gerir bandið sterkara. En við notum heldur ekki kemísk efni við vinnsluna.

Nýtingin á ullinni hjá Uppspuna er spennandi. Það er reynt að nýta öll reyfi eins og hægt. Það er ekki nema að reyfin séu mjög óhrein sem ekki er hægt að nýta þau í framleiðsluna. Grófu hárin úr hárskiljunni erum við tildæmis að nota í svokallað tröllaband, sem er mjög gróft band. Hulda notar svo ullina af eigin kindum, sem henni finnst of óhrein í ullarvinnslu, til uppgræðslu í garðinum.

Hverjir eru ykkar markhópur? „Það eru í raun allir sem prjóna. Það er alveg gríðarlegur áhugi á verkefninu. En það er líka mikið að gera í því að vinna fyrir aðra. Þá sem koma með eigin ull. Þeir bæði selja og prjóna úr því. Einnig kemur fólk inn af götunni, hópar af ýmsum gerðum. Þetta eru prjónahópar, bændur, saumaklúbbar, kvenfélög og bara allskonar. Þá koma ferðamenn einnig að skoða. Við höfum fengið hópa tildæmis frá skemmtiferðaskipum. Fyrst og fremst er þetta áhugafólk um prjónaskap.

Það er ljóst að það er margt í deiglunni hjá Huldu og Tyrfing. Verkefnið er skemmtileg viðbót í íslenskan landbúnað og íslenska ullarvinnslu. Þeir sem vilja kynna sér verkefnið geta farið á slóðina www.uppspuni.is.