3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Sækist eftir tilfinningunni sem sagan vekur

Sækist eftir tilfinningunni sem sagan vekur

0
Sækist eftir tilfinningunni sem sagan vekur
Jóheiður Ísleifsdóttir.

Jónheiður Ísleifsdóttir lestrarhestur dagskrárinnar er miðaldra stelpa sem ólst upp í Kópavogi. Hún er tölvunarfræðingur og vinnur við þjónustu og prófanir. Hún hefur alltaf elskað að lesa og veit ekkert betra en að týna sér í góðri sögu. Eftir að hafa búið í miðbænum í Reykjavík í áratug dró ástin hana á Selfoss þar sem hún býr í dag og leikur sér reglulega með Leikfélagi Selfoss.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Það er yfirleitt stafli á náttborðinu mínu. Núna eru þar Tvö hundruð sextíu og einn dagur eftir Kristbjörgu Bóel sem ég er nýbúin með og langaði til lesa af því að hún fjallar um ástarsorg og sambandsslit, dásamlega hreinskilin, fyndin og falleg bók. Þar er líka Saga þernunnar eftir Margaret Atwood sem ég byrjaði á fyrir löngu en fór svo að horfa á sjónvarpsþættina og geymdi því restina af bókinni. Atwood er frábær höfundur og ég heillaðist af henni í gegnum smásagnasafnið Good bones en við unnum með texta úr því hjá Leikfélagi Selfoss síðasta haust.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Ég les oftast allskonar skáldsögur: spennusögur, glæpasögur, ævintýri og stelpubækur. Það er svo frábært að geta valið sér bók eftir því hvernig manni líður og sumar bækur hef ég lesið aftur og aftur af því að það er tilfinningin sem sagan vekur sem ég sækist eftir og þá skiptir engu hvort ég hafi lesið hana áður. Ég reyni líka að lesa eins mikið af verkum íslenskra höfunda og ég get þó þeir höfði mismikið til mín en ég les líka mikið á ensku og dönsku og reyni yfirleitt að lesa bækur eins nálægt frummálinu og ég get. Svo kemur fyrir að ég les bækur um andleg málefni og núvitund. Þetta eru bækur sem hægt er að glugga í aftur og aftur og maður uppgötvar yfirleitt eitthvað nýtt.

Hvernig lestraruppeldi fékkstu?
Ég lærði ekki að lesa fyrr en ég byrjaði í skóla en byrjaði mjög fljótt að lesa mér til yndis og elska bækur. Við pabbi fórum saman á bókasafnið í hverjum mánuði og ég naut þess mikið að velja nýjar bækur. Astrid Lindgren var í miklu uppáhaldi og ég hef sennilega lesið Ronju ræningjadóttur oftar en nokkra aðra bók. Á þessum árum var einnig fastur liður að hlusta á Silju Aðalsteinsdóttur lesa Flambardsetrið eftir K.M. Peyton í útvarpinu og seinna voru þær bækur í miklu uppáhaldi og alltaf þegar ég las þær sjálf var eins og Silja væri að lesa fyrir mig. Alla mína æsku var lesin kvöldsaga fyrir okkur systkinin og Pollýanna og Bróðir minn ljónshjarta voru meðal þeirra bók sem mamma las aftur og aftur.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar núna?
Í dag háma ég í mig bækur þegar ég hef tíma. Ég les ennþá yfirleitt kiljur eða innbundnar bækur og er ekki mikið fyrir kindla eða tölvulestur. Það er bara eitthvað við það að halda á nýrri bók, tilhlökkunin og tilfinningin að eiga eitthvað gott í vændum. Ég les yfirleitt ekki á hverju kvöldi en það kemur ennþá fyrir að hálf nóttin líður án þess að ég taki eftir því og stundum hverfa heilu helgarnar í lestur en það er alltaf þess virði.

Er einhver einn höfundur í meira uppáhaldi en aðrir?
Ég hef átt marga uppáhaldshöfunda í gegnum tíðina og þegar ég kynnist nýjum höfundi sem ég heillast af þá á ég það til að lesa allt sem ég næ í eftir hann. Ég held til dæmis mikið upp á Jane Austin og Paulo Coelho, Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já oft og margar. Það getur verið mjög erfitt að leggja bók frá sér þó klukkan sé orðin margt. Síðasta bók sem rændi mig svefni var Origin eftir Dan Brown en þar heillaðist ég að gervigreindinni sem var stór persóna í sögunni og ég var svo gríðalega forvitin um hvernig yrði spilað úr henni að ég átti erfitt með að leggja hana frá mér.

En að lokum Jónheiður hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ég myndi skrifa skáldsögur um ófullkomið fólk.