11.7 C
Selfoss

Pílagrímaganga frá Ólafsvallakirkju til Skálholtshátíðar

Vinsælast

Að venju verður gengin pílagrímaganga frá Ólafsvallakirkju til Skálholtshátíðar sunnudagin 22. júlí nk. Brottför verður með rútu frá Skálholti kl. 7:00 stundvíslega. Gengin verður um 17 km leið frá Ólafsvallakirkju á Skeiðum sem leið liggur í átt á Fjalli á Skeiðum. Síðan verður þræddur vesturhluti Vörðufells, yfir brúnna við Iðu og heim í Skálholti. Göngunni lýkur á Skálholtshátíð þar sem pílagrímar koma einnig úr Borgarfirði og Þingvöllum þennan dag. Gengið er til kirkjunnar kl. 13:30. Kirkjukaffi verður í lok messunnar. Göngustjóri verður sr. Axel Á. Njarðvík.

Þessi leið gæti verið kærkomin tilbreyting á annars rigningasömu sumri og dagurinn gæti því orðið göngumanninum ógleymanlegur. Þess má geta að pílagrímsvegurinn er þröngi vegurinn sem leiðir mennina til lífsins. Ferðalagið felur í sér þátttöku með öðrum, að vera á hreyfingu og láta hreyfa við sér. Það er ekki alltaf auðvelt, því veður og vindar, brekkur og hælsæri, hungur og harðsperrur, vekja geðhrif sem breytast sífellt eftir landslaginu. En þótt ekki gangi allt í haginn, finndu þá samt gleðina yfir því að vera til, finndu lífið streyma um þig, jafnvel þótt á brattan sé að sækja. Þú þreytist svolítið um sinn en styrkist með hverjum deginum sem líður. Það eru krókaleiðirnar, töfin og hliðarsporin sem þú tekur sem auðga líf okkar.

Verið velkomin og skráið ykkur á www.pilagrimagongur.is.

Nýjar fréttir