1.7 C
Selfoss

Dagný Brynjars til liðs við Selfoss

Vinsælast

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Selfoss um að leika með liði félagsins í Pepsi-deildinni út þessa leiktíð. Undirskriftin fór fram í sólinni á Selfossi í gær á veitingastaðnum Kaffi Krús.

Dagný kemur til félagsins frá Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni. Hún lék síðast knattspyrnu í október síðastliðnum, með íslenska landsliðinu, áður en hún tók sér hlé þar sem hún var barnshafandi. Henni og Ómari Páli Sigurbjartssyni fæddist svo sonur í júní síðastliðnum.

Dagný er öllum hnútum kunnug hjá Selfossliðinu en hún lék 35 leiki með félaginu í deild og bikar árin 2013 til 2014 og skoraði í þeim 21 mark. Undanfarna mánuði hefur hún þjálfað yngri flokka hjá félaginu.

„Mér líst mjög vel á að vera komin aftur til liðs við Selfoss í nýja heimabænum mínum. Það er mjög mikil tilhlökkun að komast aftur í takkaskóna. Líkamlegt ástand mitt er hrikalega gott. Ég æfði vel á meðgöngunni og hef æft vel eftir fæðinguna og stefnan er sett á að mæta í takkaskónum í byrjun ágúst,“ segir Dagný.

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, er ánægður með liðsstyrkinn: „Ég er mjög ánægður með að fá Dagnýju í Selfoss aftur. Við erum að fá gæðaleikmann og það vita allir hvað hún getur. Við ætlum að gera það sem við getum til þess að hún komist í sitt fyrra form og hún mun vonandi hjálpa okkur mikið í baráttunni í deildinni á lokasprettinum. Við viljum byggja þetta upp á okkar stelpum og hún er hún er ein af þeim,“ segir Alfreð.

Nýjar fréttir