1.7 C
Selfoss

Sumartónleikar í Skálholti um helgina

Vinsælast

Önnur vika Sumartónleika í Skálholti er nú að hefjast og verður sú umfangsmesta í sumar. Tvær efnisskrár verða fluttar helgina 14.–15. júlí. Bach-sveitin í Skálholti og sönghópurinn Cantoque ensemble undir stjórn Andreas Spering flytja tvær kantötur eftir Johann Sebastian Bach. Hvers get ég vænst af veröldinni BWV 94 og Herra Jesús Kristur, hæsti Guð BWV 113.

Cantoque Ensemble er ungur hópur þekktra íslenskra söngvara sem starfa við einsöng og samsöng, en Bach sveitin í Skálholti var stofnuð árið 1986 og er nú að mestu leyti skipuð ungu fólki sem hefur lagt fyrir sig hljóðfæraleik á barokkhljóðfæri. Andreas Spering, sem er þekktur stjórnandi fyrir túlkun barokktónlistar kemur frá Þýskalandi til liðs við tónlistarmenn Sumartónleikanna.

Kantöturnar verða fluttar í Skálholtskirkju kl. 16 laugardaginn 14. júlí og kl. 14 sunnudaginn 15. júlí.

Auk þess verður þess minnst um helgina að Þorkell Sigurbjörnsson tónskáld hefði orðið áttræður á þessu ári hefði hann lifað, en Þorkell lést árið 2013. Hann var meðal mikilhæfustu tónskálda Íslendinga, flestir þekkja sálm hans Heyr himna smiður, en Þorkell samdi líka stór og smá verk fyrir hljóðfæraleikara. Á tónleikum laugardaginn 14. júlí kl. 14 leikur hópurinn ReykjavíkBarokk tónlist eftir Þorkel bæði útsetningar og orgelkonsertinn USAMO auk tveggja konserta frá barokktímanum.

Frítt er inn á Sumartónleika í Skálholtskirkju. Sjá nánar á heimasíðu sumartonleikar.is.

 

Nýjar fréttir