7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Rólegt á hálendinu í liðinni viku

Rólegt á hálendinu í liðinni viku

0
Rólegt á hálendinu í liðinni viku

Lögreglumenn voru við eftirlit á hálendinu í umdæminu í liðinni viku. Þar var rólegt um að litast og sumarumferðin að byrja að taka á sig mynd. Farið var um Syðra- og Nyrðra-Fjallabak, Sprengisand í Nýjadal og um Veiðivatnasvæðið, auk þess sem farið var í Þórsmörk. Ástand og réttindi ökumanna var kannað og reyndist í fjórum tilfellum tilefni til að gera athugasemdir vegna vöntunar ökumanna í akstri með ferðamenn vegna brota á rekstrarleyfismálum. Viðkomandi mega vænta sekta vegna brota sinna. Eftirlitsbifreið verður á hálendinu flesta daga fram til ágústloka en eftir það verða farnar ferðir í samræmi við umferð og aðstæður.

Flest umferðarlagabrota í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku voru vegna hraðaksturs, en 39 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt. Sá sem hraðast ók sætti ökuleyfissviptingu og greiddi sekt sína á vettvangi, hraði ökutækis hans mældist 157 km/klst þar sem hann ók Suðurlandsveg á móts við Varmadal að kvöldi 6. júlí sl.

Fjórir ökumenn voru teknir grunaðir um að aka ölvaðir í liðinni viku. Af þeim voru tveir grunaðir um að vera einnig undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra hefur ítrekað komist í kast við lögin vegna samskonar brota. Var ökutæki hans haldlagt með það í huga að það verði gert upptækt til ríkissjóðs vegna fjölda þessara tilvika hjá viðkomandi ökumanni. Hinn ökumaðurinn, sem eins var ástatt fyrir, ók bifreið sinni út af vegi við Úlfljótsvatn og slasaðist við það, sem og farþegi í bifreið hans. Bifreiðinni hafði greinilega verið ekið á töluverðum hraða út af veginum og voru bæði ökumaður og farþegi fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík. Ökumaður bifreiðar sem ekið var Suðurlandsveg við Hjörleifshöfða er grunaður um akstur undir áhrifum kannabisefna. Við leit á heimili hans framvísaði hann lítilræði af slíkum efnum sem hann sagði til eigin neyslu.

Skráningarnúmer voru tekin af fjórum ökutækjum vegna þess að þau voru ótryggð í umferðinni.

Ökumaður vinnuvélar við vinnu á Höfn var stöðvaður og reyndist réttindalaus. Hann á von á sekt fyrir brot sitt.