5 C
Selfoss
Home Fréttir Tillaga felld og bókanir í bæjarráði Árborgar vegna íbúakosningar um miðbæjarskipulag Selfoss

Tillaga felld og bókanir í bæjarráði Árborgar vegna íbúakosningar um miðbæjarskipulag Selfoss

0
Tillaga felld og bókanir í bæjarráði Árborgar vegna íbúakosningar um miðbæjarskipulag Selfoss

Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg, lagði fram tillögu vegna íbúakosningar um miðbæjarskipulag Selfoss á fundi bæjarráðs Árborgar fimmtudaginn 5. júlí sl. Tillaga Gunnars var eftirfarandi:
„Undirritaður leggur til að fyrirhuguð íbúakosning um aðal- og deiliskipulagstillögu vegna miðbæjar Selfoss verði haldin laugardaginn 11. ágúst nk. með hefðbundnu sniði.“

Greinargerð: Framkvæmdaaðilum vegna miðbæjar á Selfossi hefur verið tilkynnt af fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar að skipulagsferlið verði stöðvað með þeim afleiðingum að hinn 29. ágúst nk., þegar ár er liðið frá því að athugasemdafresti lauk, ógildist deiliskipulagið. Í ljósi þess leggur undirritaður til að íbúakosning verði haldin laugardaginn 11. ágúst nk. með hefðbundnu kosningafyrirkomulagi, þ.e. ekki rafrænt eins og áður hafði verið ákveðið. Fram hefur komið að þjóðskrá getur ekki útvegað kosningakerfi fyrir rafrænar kosningar fyrr en í september nk.

Meirihluti B-, S-, Á- og M-lista hefur hafnað þeirri einföldu lausn að láta deiliskipulagið taka gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og semja við framkvæmdaaðila um að samningur um framkvæmdir á lóðum í miðbæ Selfoss taki ekki gildi fyrr en eftir íbúakosninguna, fái skipulagið framgang í henni og er því nauðsynlegt að láta kosninguna fara fram með hefðbundnum hætti eigi síðar en 11. ágúst nk.“

Gunnar Egilsson, D-lista.

Tillagan var borin undir atkvæði og feld með 2 atkvæðum bæjarfulltrúa Á- og S-lista.

Bókun bæjarfulltrúa D-lista:
„Ljóst er að meirihluti B-, S-, Á- og M-lista, hafnar þeim leiðum sem færar eru til þess að láta deiliskipulagstillögu vegna miðbæjar ekki ógildast meðan beðið er íbúakosningar. Verði niðurstaðan íbúakosningar sú að fleiri eru með tillögunni en á móti þarf því að byrja allt ferlið á nýjan leik með tilheyrandi kostnaði og töfum.“
Gunnar Egilsson, D-lista.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, og Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, lögðu fram eftirfarandi bókun:

Bókun vegna tillögu bæjarfulltrúa D-lista:
„Það hefur verið öllum ljóst sem hafa fjallað um fyrirhugað miðbæjarskipulag á Selfossi að gildistaka samnings sveitarfélagsins og Sigtúns þróunarfélags öðlast ekki gildi fyrr en skipulagsferlinu er lokið og skipulagið hefur endanlega öðlast gildi. Það er því óþarfi að samþykkja sérstaka tillögu um það mál.

Fyrir liggur að Þjóðskrá er að undirbúa rafræna íbúakosningu fyrir sveitarfélagið byggða á tillögu sem D-listi Sjálfstæðisflokksins lagði fram á 46. fundi bæjarstjórnar þann 14 maí sl. og var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn. Það er ekki á valdi bæjarfulltrúa meirihlutans að hafa áhrif á hve Þjóðskrá Íslands þarf mikinn tíma til þess að undirbúa slíka kosningu, en aldrei hefur staðið annað til en íbúakosning um miðbæjarskipulagið verði framkvæmd eins fljótt og kostur er.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að meirihluti bæjarstjórnar hafi hafnað því að láta deilskipulagið taka gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda, og gera samhliða baksamning við framkvæmdaraðila. Það að láta skipulagið öðlast formlegt gildi áður en niðurstaða liggur fyrir úr íbúakosningunni eru vinnubrögð sem meirihluta bæjarstjórnar hugnast ekki.

Málið verður unnið áfram eftir leikreglum góðra stjórnsýsluhátta og gegnsæi.“

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista.
Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista.