-3.5 C
Selfoss

Þingvallagangan með Guðna Ágústssyni

Vinsælast

„Þetta er fjórða árið í röð sem ég fer fyrir Þingvallagöngu sem Þjóðgarðurinn á Þingvöllum stendur fyrir á fimmtudagskvöldum á sumrin,“ segir Guðni Ágústsson. „Sagnamaður leiðir hverja göngu og hefur frjálst val um efnistök. Ég sagði frá kristnitökunni árið 1000 í fyrra, en Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, leiddi gönguna með mér og flutti ávarp í lok hennar. Nú tek ég fyrir og ræði störf eins umdeildasta stjórnmálamanns sögunnar og spyr: Var Gissur Þorvaldsson jarl gull eða grjót?

Ég mun ræða Sturlungaöldina en þá geisaði nánast blóðug borgarastyrjöld á Íslandi. Snorri Sturluson, mesti rithöfundur okkar, var drepinn að kröfu Noregskonungs. Ég ræði Apavatnsför Sturlu Sighvatssonar, aðförina að Gissuri og afleiðingar hennar, Örlygsstaðabardaga og Flugumýrarbrennu. Gissur jarl var af Haukdælum kominn og átti gríðarlegan stuðning hér í Árnesþingi. Menn trúðu og trúa enn á Gissur en hata hann t.d. í Rangárþingi. Maður óttast helst að stuðningsmenn Sturlunganna verði með háreysti.

Nú mun Óttar Guðmundsson geðlæknir ganga með mér og í lok göngunnar ræða siðferði Sturlungaaldar. Jörmundur Ingi, fyrrverandi allsherjargoði, mun verða með í göngunni og víkingar fylgja honum og verða undir vopnum. Svo mun Karlakór Kjalnesinga syngja falleg gömul lög, þannig að þetta verður þjóðhátíð og öllum er velkomið að fylgja okkur.

Gangan fer fram fimmtudagskvöldið 5. júlí. Gengið verður frá Hakinu kl. 20:00 á Lögberg og svo að Þingvallakirkju. Gangan tekur tvo tíma og hvort sem rignir eða skín sól verður gaman og menn og konur hvött til að búa sig eftir veðrinu,“ segir Guðni vígreyfur að lokum.

Random Image

Nýjar fréttir