0 C
Selfoss

Fangelsisminjasafn Íslands sýnir á Jónsmessudögum á Eyrarbakka

Vinsælast

Dagana 23. júní til 24. júní verður einstök sýning í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka. Þar verða ýmsir munir til sýnis sem snerta fangelsissögu landsins. Um nokkurt skeið hefur verið safnað munum og gögnum sem tengjast þessari sögu og í þeim tilgangi hefur Fangelsisminjasafn Íslands verið sett á laggirnar.

Í byrjun maímánaðar s.l. var opnuð sýning Fangelsisminjasafns Íslands í Grensáskirku í Reykjavík og lauk henni nú fyrir nokkru. Fjöldi fólks heimsótti sýninguna og höfðu margir á orði að hún sýndi inn í heim sem þeim væri með öllu ókunnur og þeir hefðu ekki leitt hugann að því hvernig hlutir gengju fyrir sig hversdagslega innan þeirra húsa sem fangelsi kallast.

Á Eyrarbakka er elsta starfandi fangelsi landsins og er því við hæfi að sýna þar þá muni og þau gögn sem nú þegar hefur verið safnað. Litla-Hraun tók til starfa árið 1929 og verður níutíu ára afmælis þess minnst á næsta ári. Mjög margir munir í Fangelsisminjasafninu er komnir þaðan og von er á fleirum – og úr sem flestum fangelsum!

Mannlíf bak við lás og slá
Fangelsin geyma sögu sem er merkileg og fáum kunn. Það er helst sem ýmsir þættir hennar birtist í fréttum af margvíslegum afbrotum og ógæfu fólks. Vissulega er það neikvæð saga og oft hörmuleg. En sjaldnast er því velt fyrir sér hvernig lífið gangi fyrir sig bak við luktar dyr fangelsa. Lítið hefur verið hirt um að halda til haga ýmsum munum, gögnum og frásögum sem tilheyra þeirri sögu og varpa ljósi á hana. Nú hefur verið hafist handa við að safna þeim á skipulegan hátt með tilkomu Fangelsisminjasafns Íslands. Þetta safn er í mótun og um er að ræða í raun og veru drög að safni. Vonast er til að sem flestir gripir sem enduróma sögu fangelsa fari á safnið. Fangaverðir og aðrir áhugasamir um þessa sögu hafa lagt málinu lið. Safnið hefur ekki fengið neinn samastað enn sem komið er og vonandi rætist úr því síðar – en framtíð þess er með öllu óljós. Öll rök hníga að því að heppilegasti staðurinn fyrir Fangelsisminjasafn Íslands í ljósi sögunnar sé Eyrarbakki. Auk þess er mörg söfn að finna á Eyrarbakka og staðurinn sannkallaður safnastaður. En kjarni málsins í þessu sambandi er sá að hafist hefur verið handa við söfnun og varðveislu fangelsissögunnar. Það er mikill áfangi.

Saga sem má ekki gleymast
Vonast er til að sýning á munum Fangelsisminjasafnsins nú á Jónsmessudögum á Eyrarbakka verði til þess að vekja fólk til vitundar um mikilvægi fangelsissögunnar. Þetta er saga þeirra er starfa í fangelsum, fanganna og annarra er að koma að málum þeirra og þar með talið aðstandendum. Saga af fólki sem hefur ratað bak við lás og slá og allra þeirra sem gæta þess og veita því margháttaða þjónustu. Þetta er hluti af sögu þjóðarinnar sem ekki má gleyma: sagan af því hvernig samfélagið hefur tekið á móti brotamönnum. Þessi saga sviptir líka hulunni af aðstæðum frelsissviptra manna innan fangelsa sem og þeirra er starfa með hinu dæmda fólki. Allir vita svosem að fangelsi eru til og margt fer fram innan þeirra – til dæmis skólahald, vinna og tómstundir. Þau eru heimur út af fyrir sig og hafa ætíð verið svo. Munir og myndir segja þessa sögu út frá ýmsum sjónarhornum. Sýningin á á Jónsmessudögum á Eyrarbakka mun eflaust vekja forvitni margra og umræðu.

Allir hafa sögu að segja
Hluti af þessari minjasögu fangelsa eru líka sögur sem fólk hefur að segja af fangelsum, starfsfólki fangelsa og fanga. Þar leynast margar merkar sögur og sumar hverjar bráðskemmtilegar. Þau sem kynnu að eiga í fórum sínum frásagnir, muni eða myndir sem tilheyra þessari sögu gerðu vel í því að koma öllu því til skila til safnsins í rituðu máli – og svo er hægt að skrá niður frásagnir. Einnig rúmast innan þessa ramma frásagnir af viðhorfi Eyrbekkinga gagnvart fangelsinu á Litla-Hrauni sem er svo að segja í túnfæti þorpsins – það er sjónarhorn sem ekki má gleyma.

Allir eru hjartanlega velkomnir á sýningu Fangelsisminjasafns Íslands í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka nú á Jónsmessuhátíðinni til að njóta hennar sem og koma eftir atvikum einhverju á framfæri sem þeir telja að eigi þar heima.

Hreinn S. Hákonarson

Nýjar fréttir