1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég hef mikla þörf fyrir að skilja hvernig allir hlutir virka

Ég hef mikla þörf fyrir að skilja hvernig allir hlutir virka

0
Ég hef mikla þörf fyrir að skilja hvernig allir hlutir virka
Stefán Jónsson.

Stefán Jónsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er uppalinn Hvergerðingur en fann ástina í Kópavogi þar sem hann býr ásamt eiginkonu og þremur dætrum. Hann er stöðugt að lesa sér til gagns, jafnt í leik og starfi. Stefán er efnafræðingur og hefur starfað við erfðarannsóknir og þróun lyfja síðastliðin 13 ár.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er með fjórar mjög ólíkar bækur á náttborðinu eins og er Blóðuga jörð sem er síðasti hluti þríleiks Vilborgar Davíðsdóttur um landnámskonuna Auði djúpúðgu. The Big Picture, eðlisfræðilegt heimspekirit eða heimspekilegt eðlisfræðirit eftir Sean Carroll. Factfulness eftir sænska lækninn Hans Rosling sem segir frá því hvað heimurinn er miklu betri en flestir halda og Analytical Characterization of Biotherapeutics sem er yfirlitsrit um nýjustu tækni við rannsóknir og mælingar á líftæknilyfjum. Allt mjög áhugaverðar bækur. Mér voru reyndar gefnar fyrstu þrjár en þá síðustu er ég að lesa í tengslum við nýju vinnuna mína hjá fyrirtæki sem framleiðir líftæknilyf.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég hef mikinn áhuga á sögu, sérstaklega sögu Norðurlanda og sögu fólksflutninga og landkönnunar. Því tengt hef ég lesið töluvert af íslenskum fornritum en mér finnst líka gaman að lesa forna íslensku. Svo hef ég mjög gaman af sögulegum skáldsögum. Sérstaklega var ég ánægður með Geirmundarsögu Heljarskinns eftir Bergsvein Birgisson sem ég trúði fyrst um sinn að væri raunverulega löngu gleymt fornrit. Ég hef mikla þörf fyrir að skilja hvernig allir hlutir virka og les gjarnan bækur um vísindalega heimspeki sem þó valda mér oft vonbrigðum því þær uppfylla sjaldan loforðin á kápunni um að veita svör við öllu. Ein undantekning er þó bókin What is Life eftir Addy Pross sem á nýstárlegan hátt leiðir fullkomlega út uppruna og þróun lífs á jörðinni byggt á vel þekktum lögmálum efnafræði og varmafræði.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Ég held að það hafi verið töluvert mikið lesið á mínu æskuheimili. Ég man eftir bókasafnsferðum með mömmu löngu áður en ég varð sjálfur læs. Liklega oftast lesið fyrir mig fyrir svefninn þangað til ég var orðinn fær um það sjálfur. Þá voru vinsælar ýmsar bókaseríur eins og Fimm bækurnar, Ævintýrabækurnar, Frank og Jói ofl. en ég gat aldrei klárað meira en eina til tvær úr hverri seríu því mér fannst þær svo líkar hver annarri. Uppáhalds barnabækurnar mínar úr æsku eru Bróðir minn Ljónshjarta og Elsku Míó minn eftir Astrid Lindgren sem ég hef líka lesið fyrir öll börnin mín.

Geturðu lýst lestrarvenjum þínum?
Ég les töluvert tengt vinnunni en það er yfirleitt stuttar vísindagreinar sem hægt er að grípa niður í hvenær sem er. Bóklestur á sér nánast eingöngu stað fyrir svefninn. Þótt bókin sé spennandi eða áhugaverð næ ég sjaldnast að lesa meira en einn kafla á kvöldi. Reyndar sofna ég mjög auðveldlega við lestur svo að oft kemst ég ekki yfir meira en tvær blaðsíður á kvöldi. Bækur staldra því stundum ansi lengi við á náttborðinu nema þá helst í fríum. Ég náði til dæmis að klára þrjár skáldsögur í jólafríinu.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Fyrsta íslenska skáldsagan sem ég las og hreifst af var Riddarar hringstigans eftir Einar Má Guðmundsson. Einari Kárasyni kynntist ég í gegnum Djöflaeyjuseríuna en hann hefur síðan skrifað nokkrar áhugaverðar sögulegar skáldsögur. Þessir tveir klassísku íslensku höfundar verða að teljast í nokkru uppáhaldi hjá mér. En fyrir meistaraverkið Geirmundarsögu heljarskinn fær Bergsveinn Birgisson titilinn íslenski uppáhalds rithöfundurinn minn. Sænski höfundurinn Håkan Nesser er líka í töluverðum metum hjá mér fyrir sérstakan stíl í glæpasögum sínum, gjarnan ljúfsáran og nostalgískan, en stundum dularfullan eða fjarstæðukenndan.

Hefur bók rænt þig svefni?
Slíkt er ómögulegt því ég sofna alltaf út frá lestri.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Sennilega sögulegar skáldsögur.