5.6 C
Selfoss

Japanskur meistari heimsækir Eyrarbakka

Vinsælast

Mushimaru Fujieda, listamaður og butoh meistari frá Japan er nú staddur í heimsókn á Eyrarbakka. Hann býður upp á námskeið tvö kvöld og endar heimsókn sína á því að sýna umhverfis Húsið, Byggðasafn Árnesinga, á Eyrarbakka á Jónsmessugleðinni laugardaginn 23. júní kl. 13.30. Nokkuð sem enginn ætti að missa af.

Að gjörningi loknum verður boðið upp á seiði og söl í hjallinum norðan við safnið. Hluti sumarsýningarinnar Marþræðir er í hjallinum og kynjaverur hanga þar í loftbitum. Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir listamaður og sýningahöfundur sumarsýningar á heiðurinn af komu Mushimaru´s og Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti viðburðinn.

Námskeiðið sjálft verður fimmtudags- og föstudagskvöld 21. og 22. júní á Stað á Eyrarbakka og kallast „A lecture on Natural Physical Poetry – movement as one’s own breathing rhythm.“ Námskeiðið sem Mushimaru hefur þróað, felst í að rækta náttúrulegan dans fyrir hvern og einn með hreyfingu sem tengist öndun. Mushimaru hefur haldið námskeið í meira en 20 ár í Japan, Evrópu, Suður-Kóreu, New York, Kína, Taiwan, Hong Kong, Filipseyjum og Indlandi. Hann leggur áherslu á aðferð sem gerir hverjum og einum kleift að upplifa einlæga leikgleði barnsins í sjálfum sér. Aðferðin hefur einnig slakandi áhrif á huga og líkama. Nánari upplýsingar má sjá á facebook síðu Byggðasafns Árnesinga.

 

Nýjar fréttir