0 C
Selfoss

Sunnlenskir skólar sækja virkjunina heim

Vinsælast

Grunnskólabörn á Suðurlandi hafa undanfarið sótt heim Jarðhitasýninguna í Hellisheiðarvirkjun. Krakkar í níunda bekk í grunnskólunum í Árborg, Hveragerði og Ölfusi eru þau fyrstu sem fengið hafa kynningu í sérstöku fræðsluátaki Orku náttúrunnar (ON), sem nær til 20 skóla á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi.

Skólarnir hafa lýst mikilli ánægju með framtakið en frá miðjum maí hafa þeir allir heimsótt sýninguna, nú síðast Sunnulækjarskóli, mánudaginn 4. júní.

Hér má sjá nemendur frá grunnskólanum í Þorlákshöfn sem í heimsókn sinni í Hellisheiðarvirkjun í maí. Mynd: ON.

„Heimsókn okkar í Hellisheiðarvirkjun var mjög góð. Fræðslan sem nemendur fengu á staðnum hafði augljósa skírskotun í aðalnámskrá og beina tengingu við námsefnið sem unnið er með í skólanum,“ segir Páll Sveinsson, aðstoðarskólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. „Einnig finnst okkur mjög gott að nemendur hafi með heimsókn í Hellisheiðarvirkjun fengið innsýn í mismunandi orkuauðlindir og hvaða orkugjafa megi finna í þeirra nærumhverfi.“

Kristín Ýr Hrafnkelsdóttir, rekstrarstjóri jarðhitasýningar ON, segir undirtektir hafa verið mjög góðar hjá þeim skólum sem boðið hefur verið að koma. „Í maí og júní bjóðum við tuttugu skólum, þar af sjö utan Reykjavíkurborgar,“ segir hún, en í Reykjavík eru 45 grunnskólar. Því standi til að bjóða 35 skólum í heimsókn í virkjunina í haust. Þessi kynning er til viðbótar við kynningu til erlendra skólahópa sem tekið sé móti í Hellisheiðarvirkjun. „Flestir koma frá Bandaríkjunum og Bretlandi, en einnig frá öðrum löndum. Hingað komu um 25 þúsund nemendur á síðasta ári.“

Nemendur staldra við í allt að klukkustund á jarðhitasýningu ON í Hellisheiðarvirkjun, fá leiðsögn og spyrja spurninga, auk þess að fá sjálf að skoða sýninguna. Mynd: ON.

Fræðslan sem nemendurnir fái snúi meðal annars að því að kynna þeim hvað falli undir skilgreininguna á 100% endurnýjanlegri orku og hvernig hún sé unnin í virkjuninni. „Þótt krökkum finnist eðlilegt að heima hjá þeim sé bæði heitt vatn og rafmagn þá gera sér ekki allir grein fyrir hvaðan þessir hlutir koma og hvernig.“

Samhliða þessu kynningarstarfi segir Kristín Ýr að unnið sé að gerð námsefnis í samstarfi við Íslenska orkuháskólann við HR sem tilbúið verði í haust og falli að námsefni sem farið sé yfir í níunda bekk grunnskóla.

„Okkur finnst virkilega gaman að bjóða upp á þessa leiðsögn og erum afar spennt fyrir framhaldinu þegar námsefnið verður til. Skólarnir eru áhugasamir og finnst þetta gríðarlega spennandi og krakkarnir ánægðir sem hingað hafa komið.“

Nýjar fréttir