10.6 C
Selfoss
Home Fréttir Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir Endor til þróunar á þjónustukerfi fyrir ofurtölvurekstur

Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir Endor til þróunar á þjónustukerfi fyrir ofurtölvurekstur

0
Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir Endor til þróunar á þjónustukerfi fyrir ofurtölvurekstur
Hrafnkell Guðnason, ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, og Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Endor.

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Endor hlaut á dögunum styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem veitir verkefnastyrki á sviði nýsköpunar, menningar og atvinnuþróunar á Suðurlandi, til þess að þróa þjónustu- og umsýslukerfi fyrir viðskiptavini sem hanna og þróa afurðir sínar í ofurtölvuumhverfi. Ofurtölvur eru nýttar til þess að leysa margar af helstu áskorunum 21. aldarinnar, til dæmis við hönnun á nákvæmari veðurlíkönum, þróun hagkvæmari og grænni flutningsmáta og úrlausn flókinna rannsókna í læknisfræði og líftækni.

Verkefnið er einstakt hér á landi og þegar þróun þess er lokið mun Endor hafa skipað sér í hóp fárra fyrirtækja í Evrópu með sérhæfingu og sérsniðnar lausnir á þessu sviði. Verkefnið er unnið í samvinnu við franska upplýsingatæknirisann Atos og markmiðið er að þróa lausn sem einfaldar allan rekstur og afhendingu á ofurtölvureikniafli fyrir viðskiptavini þess. Meðal viðskiptavina Atos eru flestir stóru bílaframleiðendur heimsins og verkefnið tengist risasamningi sem Atos gerði við BMW um þjónustafhendingu úr gagnaverum á Íslandi, Þýskalandi og í Svíþjóð.

Umfang samningsins og flækjustig við afhendingu þjónustunnar er mikið og það koma fjölmargir mismunandi aðilar að því. Endanlegt takmark verkefnisins er það haldi utan um afkasta og uppitímamælingar í rauntíma fyrir alla reikniklasa í rekstri, óháð staðsetningu, og stýra þannig viðhaldi og mannskap á hagkvæmari og skilvirkari hátt.

Styrkurinn á eftir að ýtast okkur vel
„Við erum sunnlenskt félag í grunninn og helmingur starfsmanna okkar er staðsettur á Selfossi og það er gleðiefni að Uppbyggingarsjóðurinn styrki fyrirtæki í nærsamfélaginu til vaxtar. Þessi styrkur á eftir að nýtast okkur vel við þróun sérhæfðs kerfis sem gerir viðskiptavinum okkar kleift að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri hjá sér. Þetta er mjög sérhæfð þjónusta sem hefur alla burði til þess að verða stór þáttur í framtíðarvexti Endor, og mun gera okkur kleift að sækja enn frekar inn á erlenda markaði með lausnir okkar og í þéttu samstarfi við einstakt net samstarfsaðila,” segir Gunnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Endor.

Sérhæfðum störfum fjölgar á Suðurlandi
„Það er virkilega ánægjulegt fyrir Uppbyggingarsjóð Suðurlands að styrkja Endor og auðvelda þeim að vera með sérhæfingu sem fá önnur fyrirtæki eru með. Gangi það eftir getum við gert ráð fyrir fjölgun sérhæfðra starfa fyrir háskólamenntaða einstaklinga hér á Suðurlandi og það er gríðarlega dýrmætt fyrir samfélagið allt,” segir Hrafnkell Guðnason, ráðgjafi og verkefnastjóri.

Endor er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í að hámarka rekstrarhagkvæmni fjárfestinga í upplýsingatækni og nýtir til þess nýjustu tækni í sjálfvirknivæðingu. Vöxtur Endor hefur verið hraður frá stofnun árið 2015 og vinnur félagið nú með fjölbreyttum hópi viðskiptavina. Má þar nefna Íslandsbanka, DK hugbúnaðarhús og RÚV.