8.4 C
Selfoss

Viljayfirlýsing um að reysa 11 íbúða fjölbýlishús í Þorlákshöfn

Vinsælast

Á miðvikudaginn í liðinni viku var undirrituð viljayfirlýsing milli Bjargs íbúðafélags og Sveitarfélagsins Ölfuss um byggingu 11 íbúða fjölbýlishúss í Þorlákshöfn. Húsið mun rísa við Sambyggð og er áætlað að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar í maí 2019.

Þau Gylfi Arnbjörnsson, formaður Bjargs, Elín Björg Jónsdóttir, meðstjórnandi í stjórn Bjargs, Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Ölfuss, og Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss undirrituðu viljayfirlýsinguna.

Elín Björg og Gylfi lýstu yfir mikilli ánægju með að verkefnið væri komið þetta langt á veg og jafnframt þökkuðu þau ánægjulegt og gott samstarf við fulltrúa frá Sveitarfélaginu Ölfusi í þeirri vinnu sem að baki er.

Bjarg íbúðafélag er sjálfseignarstofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum og einstaklingum aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

„Í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði í sveitarfélaginu og í ljósi þeirrar staðreyndar að mjög lítið framboð íbúðarhúsnæðis er á leigumarkaði er tilkoma þessa verkefnis hinn mesti happafengur fyrir íbúa sveitarfélagsins,“ segir á heimasíðu sveitarfélagsins. Vitað er að húsnæðisvandi steðjar að fjölskyldum og einstaklingum og eru þeir sem þannig háttar til hjá hvattir til að setja sig í samband við Bjarg íbúðafélag sem fyrst (www.bjargibudafelag.is).

Nýjar fréttir