9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Hafði fullan aðgang að skólabókasafninu

Hafði fullan aðgang að skólabókasafninu

0
Hafði fullan aðgang að skólabókasafninu
Óli Kr. Ármannsson.

Óli Kristján Ármannsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fjölskyldufaðir af ´71 árgerð búsettur á Selfossi. Eiginkona hans er Guðfinna Gunnarsdóttir framhaldsskólakennari í FSu og auk sonar þeirra Dagbjarts, sem er sjö ára, búa á heimilinu tvö nær uppkomin börn þeirra. Óli er ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu KOM ráðgjöf og sækir vinnu til Reykjavíkur á hverjum degi. Áður var hann blaðamaður á Fréttablaðinu. Hann er með B.A.-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands, lauk námi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla og hefur alla tíð haft áhuga og gaman af bókum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég með einar þrjár bækur í gangi. Það eru Sauðfjárávarpið eftir gamlan vin og félaga, Hákon Jens Behrens frá Holti í Stokkseyrarhreppi, The Tao of Bill Murray sem er uppfull af sögum og lífsspeki þessa frábæra leikara og svo Fire and Fury eftir Michael Wolff sem fjallar um Trump Bandaríkjaforseta, leið hans í Hvíta húsið og fyrstu dagana í embætti. Sauðfjárávarpið klára ég nú fljótlega. Ég var skammarlega lengi að verða mér úti um hana, en spenntur að lesa hana, enda Hákon toppmaður. Bráðskemmtileg frumraun höfundar. Konan gaf mér Bill Murray, sem ég hef verið mjatla í gegnum og forsetabókina keypti ég mér í lesbrettið þegar hún var nýkomin út, en hef ekki gefið mér tíma til að leggjast almennilega í hana.

Ertu alinn upp við bóklestur?
Ég var læs um sex ára aldurinn, en þá og á fyrri hluta grunnskólaaldurs, bjuggum við fjölskyldan í Villingaholtsskóla í Flóa. Þar hafði maður náttúrlega fullan aðgang að skólabókasafninu. Svo gengu til mín alls konar bækur frá föðursystkinum mínum, þar á meðal drengjabækur á borð við ævintýri Tom Swift, Bob Moran eða Péturs stýrimanns sem ég tætti í mig og sótti mér aðrar eins, ýmist á bókasafnið á Selfossi eða Borgarbókasafnið í Reykjavík. Maður var því sílesandi.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég er oft með margar í gangi í einu og oftar en ekki eru það bækur á ensku sem ég malla í gegnum. Svo svindla ég kannski og hvíli þær sem ég er að lesa, en lauma einhverri inn í og klára í snarhasti. Í seinni tíð hef ég tekið mér lengri tíma í lesturinn en áður, en þar ræður dálitlu takturinn í tilverunni, þar sem í mörg horn er að líta bæði í vinnu og heimavið, auk þess sem bæði sjónvarp og samfélagsmiðlar ræna tíma sem sjálfsagt væri betur varið í lestur góðra bóka.

Áttu þér uppáhalds barnabók?
Þegar ég var barn var það líklega Barist til sigurs eftir hollenska rithöfundinn Jan Terlouw. Það var eitthvað við þetta ævintýri sem greip mig og opnaði mögulega á áhuga á töfraaunsæi, ævintýrabókum og jafnvel vísindaskáldskap síðar meir. Svo verður Hobbitinn líklega að eiga einhvern sess þarna líka. Skemmtileg ævintýri og spenna höfðuðu til mín.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já það hefur margoft gerst. Til að mynda hélt ég mikið upp á bækur skoska rithöfundarins Iains Banks og las þær í einni til tveimur lotum þegar þær komu út, bæði þær sem flokkuðust undir alvarlegri bókmenntaverk og hinar sem settar voru í flokk vísindaskáldsagna. Síðast gerðist þetta hins vegar með bók sem kom út fyrir síðustu jól og heitir Tvíflautan. Hana skrifar Jón Sigurður Eyjólfsson, fyrrum samstarfsmaður minn af Fréttablaðinu og mikill snillingur. Þetta er svona lífsreynsluskáldsaga og ekki laust við að það sé dálítill Þórbergur Þórðarson í honum.

En hefur lestur bókar haft sérlega djúp áhrif á þig?
Sjálfsagt er það svo, að minnsta kosti einhver áhrif. Bækur geta leitt manni í ljós ný sjónarhorn á tilveruna, stundum spaugileg, eins og með bækur þær sem bandaríski rithöfundurinn Thomas Pynchon hefur sent frá sér. Svo eru aðrar sem birta manni bæði fegurð og ljótleika mannlegrar tilveru að snertir við manni. Þar koma sérstaklega upp í hugann teiknimyndasögur (sem enskumælandi kalla graphic novels, eða grafískar skáldsögur) á borð við Barefoot Gen eftir Keiji Nakazawa, um drenginn frá Hiroshima, og svo Maus eftir Art Spiegelman þar sem fjallað er um helförina.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ætli ég myndi ekki reyna að fylla í gloppuna í íslenskum bókmenntaflórunni með því að skrifa hryllingssögur. Það er ekkert offramboð á slíku hér þó að erlendis mokselji höfundar á borð við Stephen King og Clive Barker svoleiðis sögur. Já eða einhverjar spennusögur. Hún hefur hins vegar látið á sér standa, hugmyndin sem hefði getað orðið kveikjan að slíku.

En að lokum Óli hvernig er bókarlaus heimur?
Hann yrði fátæklegur. Bækur færa fólki upplifanir og tilfinningar sem það hefði öðrum kosti aldrei kynnst og með sterkari hætti en hægt er að gera í kvikmyndum eða sjónvarpi því ímyndunaraflinu eru engar skorður settar.