11.7 C
Selfoss
Home Fréttir D-lista tekst ekki að reka sjálfbæran bæjarsjóð

D-lista tekst ekki að reka sjálfbæran bæjarsjóð

0
D-lista tekst ekki að reka sjálfbæran bæjarsjóð
Ingunn Guðmundsdóttir.

Í fróðlegum sjónvarpsþætti RÚV um fjármál sveitarfélaga þann 7. maí síðastliðinn var rætt við Sigurð Á. Snævarr sviðsstjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann taldi rekstrarhorfur sveitarfélaga almennt góðar ef litið væri til fjárhagsáætlana þeirra til næstu þriggja ára en sagði líka:
En það er margt sem við höfum miklar áhyggjur af. Við höfum haft áhyggjur af því að A hlutinn, raunverulegi rekstur sveitarfélagsins hann sé kannski ekki sjálfbær. Það er að skuldsetningin sé það mikil að það sé bara í sögulegu góðæri sem við erum að sjá tölur sem eru góðar eða kannski ekki meira en viðunandi.“

Nú er sögulegt góðæri og því ættu líklega allir bæjarsjóðir landsins eða A-hlutar að vera sjálfbærir. Það er engan veginn svo hér í Árborg og það er greinilega ekki stefna meirihluta Sjálfstæðisflokks að gera hann sjálfbæran þar sem fjárhagsáætlun A-hluta fyrir árið 2018 er skilað með halla þrátt fyrir að sóttar séu 180 milljón krónur til B-hluta fyrirtækja. Það er stórvarasamt að líta á B-hluta fyrirtækin sem hluta af rekstri bæjarsjóðs vegna þess að til þeirra er stofnað til ákveðinna verka og tekjum þeirra verður að forgangsraða til að framkvæma þau. B-hluta fyrirtækin sem um ræðir eru vatnsveita, fráveita og Selfossveitur. Íbúar sem eiga húseignir eða halda heimili greiða gjöld til þessara fyrirtækja.

Það eru framundan gríðarlegar fjárfestingar bæði hjá fráveitunni og hjá Selfossveitum. Hvað gerist þegar þessi fyrirtæki hefja framkvæmdir fyrir alvöru? Hvernig verður bæjarsjóði þá haldið á floti? Líklega þarf að minnka arðgreiðslurnar verulega og augljóslega að borga til baka þá peninga sem teknir hafa verið að láni hjá þeim.

Það er allt of mikil áhætta og ábyrgðarhluti að treysta á að B-hlutinn standi undir rekstri lögbundinna verkefna A-hluta. Bæjarstjórn Árborgar verður að gera umbætur í rekstrinum sama hvaða einstaklingar verða við völd. Það eru alltaf einhver tækifæri til hagræðingar í svo stórum rekstrareiningum sem Árborg er. Fyrir þann sem horfir utanfrá kemur fyrst upp í hugann að gera betur í innkaupum á vörum og allskonar þjónustu sem bærinn er að kaupa en ekki síst í verklegum framkvæmdum. Alltaf þarf að byrja á að framkvæma greiningu á rekstrinum í samstarfi starfsmanna og pólitískra fulltrúa.

Ingunn Guðmundsdóttir, viðskiptafræðingur, skipar 6. sæti Á-lista, Áfram Árborg.