8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Búum fjölskyldum gott umhverfi í Hveragerði

Búum fjölskyldum gott umhverfi í Hveragerði

0
Búum fjölskyldum gott umhverfi í Hveragerði
Friðrik Sigurbjörnsson.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.

Í Hveragerði hafa stórir áfangar hafa náðst á undanförnum árum hvað varðar skilyrði barnafjölskyldna. Má þar meðal annars nefna að nú fá börn frá 12 mánaða aldri boð um leikskólavistun, niðurgreiðslur hafa hækkað um 100% til dagforeldra og foreldrar greiða sama gjald hjá dagforeldrum og í leikskólum frá 12 mánaða aldri.

Börn í tónlistarnámi og öðrum frístundum eiga líka að fá styrk
Í stefnuskrá D-listans er að finna mörg atriði sem snúa að bættu umhverfi barnafjölskyldna. Við viljum til dæmis hækka frístundastyrkinn verulega. Með hækkuðum frístundastyrk geta öll börn nýtt sér stuðninginn enda nýtist sá styrkur í allar tómstundir sama af hvaða meiði þær eru og hvar þær eiga sér stað.   Það er hróplegt óréttlæti fólgið í þeirri tillögu að íþróttastarfi sé gert mun hærra undir höfði en öðrum tómstundum. Tillögur sem fram hafa komið um eitt gjald fyrir alla íþróttaiðkun eru mjög kostnaðarsamar og hætt við að ekki verði mögulegt að hækka jafnframt frístundastyrkinn sem nýtist þó öllum börnum á öllum aldri óháð því hvort þar sé um að ræða tónlistarnám, ungbarnasund, hraðlestur, skátastarf eða hvað það nú er annað sem ungu fólki langar til að stunda í og utan Hveragerðis.

Gott umhverfi fyrir barnafjölskyldur
Bæjarfulltrúar D-listans í Hveragerði hafa lagt áherslu á að hlúa að barnafjölskyldum og það hyggjumst við gera áfram. Við höfum á kjörtímabilinu reist nýjan og glæsilegan leikskóla, komið á frístundastyrkjum, gert þjónustusamninga við íþrótta- og tómstundafélög í bænum, eflt frístundaskólann og hafið undirbúning að íþróttaskóla í samstarfi við Íþróttafélagið Hamar svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta og meira til hefur leitt til þess að ungt fjölskyldufólk hefur ákveðið að flytja til Hveragerðis í auknum mæli.

Við ætlum að halda áfram að gera Hveragerðisbæ að enn fjölskylduvænni bæ, fáum við áframhaldandi umboð til þess þann 26. maí.

 

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, 2. sæti á D-listanum í Hveragerði.
Friðrik Sigurbjörnsson, 3. sæti á D-listanum í Hveragerði.