7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Hvernig lenti ég í þessu?

Hvernig lenti ég í þessu?

0
Hvernig lenti ég í þessu?
Baldur Guðmundsson.

Ég fór í framboð til sveitastjórnarkosninga vegna þess að mér þykir vænt um sveitina sem ég er fæddur og uppalinn í. Í staðinn fyrir að væla við eldhúsborðið heima ákvað ég að slást í hóp með fólki sem er að vinna í því að gera Ölfus betra.

Það hefur margt gott verið gert í dreifbýlinu á síðustu árum til dæmis var lagður ljósleiðari inn á 95% heimila í sveitarfélaginu, sem hafði mjög góð áhrif á búsetu. Íbúar geta sinnt vinnu meira heima í gegnum ljósleiðarann og horft á knattleiki án þess að missa alltaf af markinu.

Vegna nálægðar við Hveragerði og Selfoss er nauðsynlegt að það sé gott samstarf á milli sveitarfélaganna og þá sérstaklega í skólamálum. Grunnskólamál hafa verið í góðum og öruggum farvegi en nýverið var fjárfest í leikskólum í Hveragerði þannig að börn úr dreifbýli hafa jafnan aðgang að leikskólaplássi og börn úr Hveragerði. Skólaakstur þarf að skoða á hverju hausti með tilliti til stundatöflu, fjölda barna og staðsetningar þeirra í dreifbýlinu, þannig að það henti sem flestum.

Mikilvægt er að halda áfram uppgræðslu á afrétti sveitarfélagsins en landgræðslan hefur séð um áburðargjöf á Hengilssvæðinu með styrk úr uppgræðslusjóði Ölfuss. Reykjadalur er oft í umræðunni og er búið að leggja þar göngustíga og smíða palla með tröppum ofan í lækinn. En það þarf að gera betur og þarf landeigandi eða ríkið að koma þar að til að hægt sé að vera með landvörslu í dalnum. Heiðin öll er náttúruperla sem gaman er að fara um og njóta náttúrunnar sem þar er í boði.

Haustið 2016 var vígð ný og glæsileg rétt við mynni Reykjadals, við þá breytingu er hægt að rétta sama dag og fé er rekið af fjalli. Nú þegar hafa verið malbikaðir nokkrir afleggjarar í dreifbýlinu og er nauðsynlegt að halda því verki áfram þar til búið er að malbika alla afleggjara.

Sveitarfélagið Ölfus er öflugt og með stækkun hafnarinnar eru opnar dyr fyrir Ölfusið og nágranna sveitarfélögin að inn- og útflutningi og atvinnutækifærum af ýmsum toga.

Að lokum hvet ég alla til að nýta kosningarétt sinn og mæta á kjörstað og kjósa.

 

Baldur Guðmundsson, skipar 4. sæti Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfus, XO.