5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Ábyrg fjármálastjórnun

Ábyrg fjármálastjórnun

0
Ábyrg fjármálastjórnun
Helgi S. Haraldsson.

Það er rík skilda bæjarfulltrúa að huga vel að fjármálum sveitarfélagsins. Hvernig fjármunanna er aflað og hvernig þeim er eytt. Því er mikilvægt að vanda til fjárhagsáætlunargerðar og fjárfestingaáætlunar ár hvert. Ekki er síður mikilvægt að fylgjast síðan með rekstrinum, mánaðarlega og að forstöðumenn og aðrir fari eftir þeim áætlunum sem gerðar hafa verið. Í störfum mínum sem bæjarfulltrúi undanfarin ár hef ég lagt ríka áherslu á þetta og þá sérstaklega eftirfylgnina með rekstrinum. Það er mjög óeðlilegt að stór frávik séu á daglegum rekstri, ef vandað hefur verið til áætlunargerðar.

Langtímaskuldir Sveitarfélagsins Árborgar, hafa frá árinu 2010, aukist um 32,9% og eru í dag 7,1 milljarður. Með sama áframhaldi verða þær komnar í tæpa 10 milljarða í lok næsta kjörtímabils. Er það ásættanlegt? Fráveita sveitarfélagsins er rekin árlega með hundruða milljóna afgangi, en samt gerist ekkert í að koma fráveitumálunum í nútímahorf með hreinsun og öðru sem lög segja til um. Hvernig stendur á því? Er verið að nota fjármagnið í aðra óskilda hluti? Það skyldi þó ekki vera. Þessu verður að breyta og sjá til þess að það fjármagn sem aflað er með álögðum sköttum á íbúa fari í þá málaflokka sem því ber að fara í. Það er m.a. ábyrg fjármálstjórnun.

Fasteignagjöld, í heild sinni, saman standa af fasteignaskatti, vatnsgjaldi, lóðarleigu, sorphirðugjaldi og fráveitugjaldi. Álagningarprósenta hvers og eins af þessum gjöldum er ákveðin í fjárhagsáætlunargerð hvers árs. Er eðlilegt að þessi gjöld séu langt umfram það sem reksturs hvers málaflokks er í raun og veru á hverju ári? Nei, þetta þarf að skoða betur og sjá til þess að hækkun fasteignamats, sem ákveðið er árlega að hálfu hins opinbera, verði ekki til þess að álagning sveitarfélagsins verði um of íþyngjandi fyrir íbúana.

Framsókn og óháðir vilja ábyrga fjármálastjórnun og sanngirni gagnvart íbúum Svf. Árborgar.

 

Helgi Sigurður Haraldsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Árborg.